Lítill möguleiki á þörf fyrir fjöldahjálparmiðstöð

Margir aðilar koma að því að meta hvort þörf sé …
Margir aðilar koma að því að meta hvort þörf sé á að opna fjöldahjálparstöð. Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi

Aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að áætlanir varðandi fjöldahjálparmiðstöð fyrir erlenda ferðamenn, vegna mögulegra verkfalla hótelstarfsfólks, séu ekki komnar í skoðun. Framkvæmdastjóri Rauða krossins segir sjálfboðaliða tilbúna til að bregðast við ef nauðsyn krefur.

„Númer eitt tvo og þrjú er auðvitað að hótelin sjálf og þeir sem reka hótelin sem voru búnir að lofa gistingu, þeir þurfa að upplýsa fólkið sem að var mögulega á leiðinni að það væri ekki gisting,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segir Ferðamálastofu hafa verið komna í það að finna nýja gististaði fyrir ferðamenn.

Aðspurður hvort hefði verið gripið til þess að opna fjöldahjálparstöð ef að tvö þúsund túristar yrðu á reiki á höfuðborgarsvæðinu án gistingar segir Ásgeir að gripið sé til þeirra aðgerða sé fólk á vergangi. Honum finnist þó skrítið að fólk komi til landsins þrátt fyrir stöðuna í ljósi þess að við lifum á tækniöld með ógrynni af upplýsingum.

„Ég held að það hafi verið afar, afar lítill möguleiki að allir sem ætluðu til Íslands vætu bara einhvern veginn „offline“ við internetið og myndu ekki átta sig á því að hótelin væru mögulega lokuð. Mér finnst líka afar skrítið og eiginlega bara óhugsandi að þeir sem séu að reka hótelin hafi ekki verið með upplýsingagjöf til sinna kúnna um það að hótelin stæðu mögulega ekki til boða,“ segir Ásgeir.

Hann bætir því við að almennt séu þó áætlanir til um það hvaða hús séu opnuð fyrir almenningi ef að fólk er á vergangi.

Fólkið hefði ekki komið

„Það var ekki búið að draga þessi plön fram þannig lagað. Við erum á mikilli tækniöld þar sem allir vita allt um allt og hvernig hlutirnir eru. Þessi staða hefði aldrei komið upp, fólkið hefði bara ekki komið,“ segir Ásgeir.

Hann segir lögregluna ekki haft áhyggjur af því að rýmingaráætlanirnar hafi þurft að nota. Fjöldahjálparstöðvar séu bara notaðar til þess að passa að fólk sé á lífi. Lögreglan hafi í raun gert ráð fyrir því að hótelin væru í góðu sambandi við gesti sína.

Þegar möguleikinn á uppsetningu fjöldahjálparmiðstöðvar var borinn upp við framkvæmdastjóra Rauða krossins, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur mátti heyra svipaða sögu og frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta virkar þannig að ef að það skapast neyð að mati almannavarna og almannavarnakerfið er virkjað að þá er Rauði krossinn hluti af því og þá er ákvörðun tekin um að opna fjöldahjálparmiðstöð,“ segir Kristín og bendir á að Rauði krossinn sjái ekki einn um að taka þá ákvörðun. Almannavarnakerfið sé virkað og staðan metin.

Fjöldahjálparmiðstöðvar eru neyðarúrræði

Aðspurð hvort hún teldi að það yrði opnuð fjöldahjálparstöð ef að tvö þúsund ferðamenn innan höfuðborgarsvæðisins yrðu án gistingar segir hún almannavarnakerfið ráða því.

„Við hreyfum okkur ekki fyrr en það er metið sem svo að það sé almannavarnaástand, þá erum við bara hluti af þeirri keðju og það er ákvörðun almannavarna að opna fjöldahjálparstöð. Ég met það sem svo að það sé betra fyrir gesti að vera áfram inni á hótelherbergjum þó það sé ekki þrifið í nokkra daga heldur en að leggjast á bedda í fjöldahjálparstöð,“ segir Kristín.

Innan almannavarnakerfisins sé þó alltaf verið að setja upp sviðsmyndir og ræða málin en opnun fjöldahjálparmiðstöðva sé algjört neyðarúrræði.

Kristín segir það ekki hafa verið metið sem svo að þörf yrði á að opna fjöldahjálparmiðstöð fyrir ferðamennina sem yrðu gistingarlausir.

„Ef kall kemur, þá bregðumst við við. Við erum viðbragðsfélag og erum alltaf tilbúin að sinna okkar skilgreinda hlutverki,“ segir Kristín og bætir því við að ef að fyrrnefnd staða myndi myndast þá yrði öllum komið í skjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert