Nágrannar áfangaheimilisins Betra lífs í Vatnagörðum segja farir sínar ekki sléttar í sambúðinni.
Fimm voru fluttir á slysadeild eftir eld sem kom upp í einu herbergi áfangaheimilisins í morgun. Áfangaheimilið er að Vatnagörðum 18. Tæknideild lögreglu rannsakar brunavettvanginn, en frekari upplýsinga um málið er ekki að vænta fyrr en í næstu viku, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra lífs, rak áfangaheimili við Fannborg í Kópavogi en var gerður brottrækur vegna ónógra eldvarna.
Þeir Guðmundur Páll Ólafsson og Ægir Eyberg Helgason reka Pípulagningafyrirtækið Pípuleggjarann sem staðsett er í húsinu við Vatnagarða 16 en húsin eru samtengd.
„Fyrst viljum við nú segja að það er fyrir öllu að enginn hafi slasast og að húsið sé ekki meira skemmt en raun ber vitni en það virðist sem eldurinn hafi verið staðbundinn við efri hæðina.“
Hvað sambúðina við áfangaheimilið varðar segja þeir hana hafa verið hreint út sagt skelfilega.
„Það er búið að vera stöðugt ónæði síðan þessi starfsemi hófst í húsinu. Við höfum orðið fyrir innbrotum í bíla og rúður hafa verið brotnar. Það hafa orðið gripdeildir hjá okkur nágrönnum hér í kring. Það hefur verið farið inn í Iðuna og dót tekið þaðan og farið inn í gáma hér í nágrenninu og fleira.
Þá er fíkniefnaneysla áberandi og sprautunálum er hent út um gluggann niður í bílastæðið fyrir utan.
Við höfum séð flöskur komið fljúgandi út um glugga sem hafa lent fyrir framan hjá okkur og nágrönnum okkar og starfsfólk okkar hefur verið í hættu. Starfsfólk á skrifstofu hefur illa þorað að fara heim úr vinnu á kvöldin.“
Þeir segjast hafa sent pósta á byggingafulltrúa og heilbrigðisetirlitið og spurt hverju sætir að starfsemi áfangaheimilis sé leyfð í húsnæði sem ætlað er iðnaði.
„Svörin eru á þá leið að þetta sé í skoðun en það er ekkert annað gert.“
Þeir segja 30 herbergi í útleigu til fíkla eða þeirra sem eru í einhvers konar bata eða á leið í meðferð og fleira.
„Þetta er rekið sem áfangaheimili svo borgin hlýtur væntanlega að borga brúsann.“
Hildur Elín Vignir er framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs en Iðan er að Vatnagörðum 20, í næsta húsi við áfangaheimilið. Hún segir sambúðina hafa verið frekar erfiða.
„Við erum búin að senda inn ábendingar og við höfum þurft að kalla til lögreglu,“ segir Hildur.
Hún segir starfsfólk Iðunnar orðið vör við að kveikt hafi verið í dýnum og þeim hent út um gluggan niður á bílaplanið.
„Þeir sem eru þarna inni eiga ekki að vera í neyslu en við höfum orðið vör við að einhverjir þeirra séu sannarlega í neyslu. Við höfum grun um að þeir hafi verið að geyma fíknifefni hér á skyggninu fyrir utan húsið.“
Þá segir hún að starfsfólk Iðunnar hafi orðið vart við að farið hafi verið hinum megin við húsið til að neita fíkniefna.
Hildur segir að óviðkomandi hafi komið inn til Iðunnar á vinnutíma til þess að stela munum úr húsinu og segir eftirlit hafa verið stóraukið.
„Við höfum aukið við fjölda öryggismyndavéla hér í húsinu til að vera vel á vaktinni og við höfum þurft að loka hluta af húsnæðinu tímabundið því við vildum ekki taka áhættu á að það væri hægt að komast óhindrað á milli rýmanna hjá okkur.
Þá hefur verið farið inn í bíla á bílastæðinu hjá okkur svo við höfum þurft að brýna fyrir fólki sem kemur á námskeið hjá okkur að læsa bílum sínum.“
Hildur segist aðspurð einnig kannast við það að starfsfólki hafi fundist óþægilegt að fara heim seint á kvöldin ef það er að vinna fram eftir og hreinlega óttast um öryggi sitt.
„Svo við höfum bæði þurft að leita til lögreglu og þá sendum við formlega ábendingu inn til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 12. janúar siðastliðinn því við höfum virkilegar áhyggjur af brunavörnum í húsinu.“