Megi ekki við heimagerðum hamförum verkalýðsfélaga

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir tjón verkfalla ferðast um alla virðiskeðjuna hefjist þau á nýjan leik. Lítil ferðaþjónustufyrirtæki megi ekki við heimagerðum hamförum verkalýðsfélaga.

Hann segir gott að þau sem deili vilji ræða saman en skaðinn sé að vissu leyti skeður.

„Staðan er kannski bara þannig að það er alltaf gott þegar tilbúið til að tala saman. Það náttúrulega hefur þegar orðið töluvert tjón en meira beinu tjóni núna um helgina hefur verið afstýrt í bili. Þannig við verðum bara að sjá til hvort það er einhver grundvöllur til þess að ná saman núna á næstu dögum og það er náttúrulega bara jákvætt ef það er einhver slíkur grundvöllur en það verður bara að koma í ljós,“ segir Jóhannes.

Hann segir samtök ferðaþjónustunnar halda áfram að safna upplýsingum og miðla til almannavarna eftir því hvernig staðan þróast. Raunverulegur vandi komi upp þegar fólk hafi ekki gistingu lengur, sá vandi hverfi ekki ef verkföll hefjast aftur á mánudag.

Þegar gistingin hverfi falli allt annað.

„Virðiskeðjan rofnar, ferðamannastraumurinn rofnar og hann er eins og rafstraumur sem hríslast um alla virðiskeðjuna, út í allt samfélagið. Þegar sá straumur rofnar það er ekki lengur orka á ferðaþjónustunni. Þannig það er ómögulegt annað en að fólk geri sig grein fyir því að þetta er tjón sem verður um alla virðiskeðjuna ef þetta hefst á ný,“ segir Jóhannes.

Ferðaþjónustan hefur miklar áhyggjur

Hann segir nýja stöðu myndast með nýjum viðbragðsleiðum hefjist verkfall aftur á mánudag. Hvað sem er geti gerst. Tíminn leiði allt í ljós.

Þegar fjölda ferðamanna sem yrðu gistingarlausir hér á landi haldi verkföllin áfram segir Jóhannes að allt frá nokkur hundruð upp í tvö þúsund ferðamenn gætu verið í vanda hverja tvo daga.

„Það er mikilvægt að átta sig á því að það skiptir engu máli hvort það sé helgi eða virkur dagur, ferðaþjónustan er í gangi alla daga vikunnar á svipaðan máta,“ segir Jóhannes.

Þegar Jóhannes er spurður út í líðan fólks í ferðaþjónustu segir hann alla áhyggjufulla.

„Ferðaþjónustu fólk hefur náttúrulega miklar áhyggjur af þessari stöðu. Þetta eru að stærstum hluta lítil og meðalstór fyrirtæki sem að hafa farið í gegnum mjög erfiða tíma síðustu tvö ár og eru að reyna að nýta þennan tíma núna til þess að vinna sig upp úr því. Þau mega bara ekkert við einhverjum svona heimagerðum hamförum í boði verkalýðsfélaga. Það er nú bara svolítið þannig sem fólkið í bransanum lítur á þetta, það hefur áhyggjur af stöðunni, að þetta sé komið upp og vona náttúrulega að þetta leysist sem fyrst,“ segir Jóhannes.

Hann segir örtröðina sem myndaðist á Keflavíkurflugvelli þegar allt lokaðist vegna veðurs og ferðamenn festust á vellinum, vera gott dæmi um það sem gerist þegar hlutir klúðrast í ferðaþjónustunni.

„Þetta er atvinnugrein sem að snýst um að þjónusta fólk og það er eitthvað sem við viljum reyna að gera vel. Það er mjög slæmt þegar eitthvað kemur upp á sem veldur því að það riðlast öll keðjan. Hvort sem að það eru vond veður eða verkföll þá eru afleiðingarnar alltaf slæmar því að við erum að reyna að þjónusta fólk eins vel og við getum og fólkinu í ferðaþjónustunni, því líður ekki vel þegar það getur ekki uppfyllt sínar skyldur og þjónustu sem það er búið að selja,“ segir Jóhannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert