Mörg álitamál enn óleyst

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, segir fund dagsins hafa gengið ágætlega en hann hefði gjarnan viljað fara yfir fleiri mál. 

Hann segir alvöru kjaraviðræður hafnar en mörg álitamál séu enn óleyst enda hafi deiluaðilar byggt sínar tillögur á mjög ólíkum forsendum.

„Ef að við verðum komin á þann stað að við erum farin að tala sama tungumál þá gengur þetta vonandi hraðar á morgun,“ sagði Ástráður eftir að fundi lauk í Karphúsinu. Nýr fundur hefur verið boðaður klukkan 10 í fyrramálið.

Mjög mismunandi og ólíkar forsendur

„Það sem dagurinn hefur farið í er það að aðilarnir hafa verið að fara yfir forsendur þeirra hugmynda sem að þeir hafa haft um breytingar á kjarasamningnum og þar kom auðvitað í ljós að aðilarnir hafa verið að byggja sínar hugmyndir á mjög mismunandi og ólíkum forsendum þannig að verkefni dagsins hefur verið að fara yfir þær og reyna að átta sig á forsendum hvers annars til þess að geta betur borið saman hverjar tillögurnar raunverulega eru og á hverju þær byggjast.“

Hann segir þetta mikilvæga vinnu sem sé forsendu þess að deiluaðilar geti verið sammála á hvaða grundvelli þeir séu að ræða saman. „Þetta hefur verið meginverkefni dagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert