Fyrrverandi yfirlögregluþjónar hjá embætti ríkislögreglustjóra sem höfðu betur í Landsrétti í dag gegn fyrrverandi vinnuveitanda sínum segjast fagna niðurstöðunni. Málaferlin hafa tekið á þriðja ár, en þeir fjórir sem höfðuðu málin hafa nú allir látið af störfum hjá embættinu.
Óskar Bjartmarz, einn af yfirlögregluþjónunum, sagðist mjög ánægður með niðurstöðuna þegar mbl.is náði stuttu tali af honum fyrir utan dómsalinn, en sagðist ekki vilja tjá sig nánar fyrr en hann hefði lesið dóminn allan.
Ásgeir Karlsson sagðist einnig ánægður með niðurstöðuna. „Það er ömurlegt að standa í svona málaferlum eftir á fimmta tug ára í lögreglunni,“ bætti hann við, en eins og Óskar vildi hann kynna sér niðurstöðuna nánar áður en hann tjáði sig frekar.
Fjórmenningarnir hafa eftir að málið kom upp allir látið af störfum sökum aldurs, en það snerist um launasamkomulag sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við þá og aðra yfirmenn innan lögreglunnar árið 2019.
Fjármálaráðherra hefur sagt að samkomulagið hafi kostað ríkissjóð 360 milljónir, en í því fólst að að fimmtíu fastar yfirvinnustundir færðust inn í dagvinnulaun. Þannig urðu til mun meiri lífeyrisréttindi en ella og laun lögreglumanna hjá embætti ríkislögreglustjóra hærri en laun flestra lögreglustjóra landsins.
Þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við embætti ríkislögreglustjóra árið 2020 boðaði hún afturköllun á þessu samkomulagi og taldi embættið ekki bundið af því. Í kjölfarið höfðuðu fjórmenningarnir fyrrnefnd mál.