Sá eldinn og flúði út um bakdyr

Eldur í Vatnagörðum í dag.
Eldur í Vatnagörðum í dag. Ljósmynd/Ásgeir Andri Guðmundsson

Páll Pálsson, íbúi í Vatnagörðum þar sem kviknaði í í dag, komst út úr brennandi byggingunni að sjálfdáðum. Hann segist ekkert hafa út á forstöðumann áfangaheimilisins Betra lífs að setja, né út á brunavarnir í húsnæðinu.

Fimm voru flutt­ir á slysa­deild eft­ir eld­inn sem kviknaði á áfanga­heim­il­inu Betra líf í Vatna­görðum í morgun. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu slasaðist enginn al­var­lega.

Páll leigir herbergi í Vatnagörðum þar sem áfangaheimilið er staðsett en hann segir þar eigi ekki eingöngua fíklar og flóttamenn heima, heldur líka fólk sem á einfaldlega ekki fyrir leigu annars staðar.

Páll sá eldinn í öðrum enda hússins og flúði út um bakdyr húsnæðisins.

„Ég fékk mjög væga reykeitrun. Ég þurfti að vera með súrefni í klukkutíma,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Leigir herbergi á 130 þúsund krónur

Hann segir samskiptin við forstöðumann Betra lífs vera mjög góð.

„Það er ekkert út á hann að setja. Ég held að eldvarnir og allt hafi verið í fullkomnu lagi. Allir neyðarútgangar virkuðu og allt,“ segir Páll.

Páll leigir herbergi í húsnæðinu á 130 þúsund krónur á mánuði. Hann hefur aðgang að sameiginlegri baðherbergisaðstöðu og eldhúsi. Að því dregst upphæð sem hann fær í styrk frá Reykjavíkurborg.

Hvar gistir þú í nótt?

„Ég hef ekki grænan grun,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka