Skakkaföll dragi úr trúverðugleika áfangastaðarins

Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótelanna, segir nýhafið ár hafa getað orðið …
Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótelanna, segir nýhafið ár hafa getað orðið það besta í ferðaþjónustu. Lærdóm megi draga af kjaradeilunni. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Við erum auðvitað mjög fegin að það er búið að blása þetta af yfir helgina svo við náum að hýsa fólk sem annars hefði verið á götunni,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótelanna, í samtali við mbl.is og á við frestun verkfalls Eflingar.

Segir Hildur bókunarstöðuna eftir sem áður mjög góða út mánuðinn hjá Berjaya en þar var lokað fyrir allar bókanir samstundis því er verkfallsboðun barst. „Við höfum því ekki haft herbergi í sölu núna í þó nokkurn tíma,“ heldur hún áfram og kveður lokunina standa til 25. febrúar eins og sakir standa nú.

Stjórna því ekki svo glatt hvort fólk komi

„Við metum þetta svo aftur á sunnudaginn, ef allt fer í hnút aftur lokum við yfir lengra tímabil,“ segir aðstoðarframkvæmdastjórinn og segir lokunina tilkynnta gegnum þær bókunarvélar sem hótelkeðjan noti, sem séu allmargar. Stór hluti sölunnar fari þó fram gegnum þriðja aðila sem skapi ákveðnar áskoranir.

„Þá er svo til vonlaust að ná sambandi við viðskiptavininn þannig að maður stjórnar því ekkert svo glatt hvort fólk komi eða ekki. Núna erum við með yfir 90 prósenta nýtingu á öllum okkar hótelum sem eru 1.006 herbergi, það gerir 2.000 manns alltaf sem eru að koma hverju sinni, en eins og staðan er núna eru flest hótelin mjög vel bókuð í næstu viku og það er staða sem lá fyrir þegar verkfallsboðun barst,“ segir Hildur.

Eitt hótela Berjaya-keðjunnar við Hafnarstræti.
Eitt hótela Berjaya-keðjunnar við Hafnarstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Bókunarfyrirvari sé styttri yfir vetrarmánuðina, almennt um tveir til þrír mánuðir, og hjá henni hafi verið nánast fullbókað þegar verkfallsboðun barst. „Þetta var auðvitað stuttur tími sem verkfallið stóð [fram að frestun þess] og við vorum bara algjörlega tilbúin þegar það hófst í hádeginu þennan miðvikudag svo sá dagur var alveg áreynslulaus má segja. En svo strax í gær þurftu okkar stjórnendur að taka til hendinni og sinna störfum þeirra undirmanna sinna sem tilheyra Eflingu.“

Þú selur ekki flug ef ekkert er gistirýmið

Það fyrirkomulag hafi ekki verið áreynslulaust en þó gengið að óskum. Hildur treystir sér ekki til að spá neinu um hvort áfram verði lokað fyrir bókanir eftir næstu viku. „Eftirspurnin er alveg gríðarleg og að sjálfsögðu eru allir að verða fyrir skakkaföllum á meðan þeir eru með „Lokað“-skilti í hurðinni, það á auðvitað við um hin hótelin líka og alla ferðaþjónustuna því á meðan ekki er laust gistirými í Reykjavík selurðu ekki flug og þú selur ekki afþreyingu,“ segir Hildur.

„Þetta ár hefði getað orðið það besta í ferðaþjónustu, það er dapurt að til svona skakkafalla komi. Þau valda álitshnekki og draga úr trúverðugleika áfangastaðarins,“ heldur Hildur áfram og rifjar upp að skaðinn hafi verið töluverður þegar allt fór í óefni í desember við lokun Reykjanesbrautarinnar.

„Nú um helgina stefndi í nákvæmlega sama ástand aftur, en aðeins í Reykjavíkurborg og ég held að við þurfum bara öll að draga lærdóm af þessu. En við sjáum ekkert fyrir endann á þessu fyrr en búið er að semja, það er svo einfalt,“ segir Hildur Ómarsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert