Slökkvilið skoðaði áfangaheimilið í síðustu viku

Eldur varð í áfangaheimilinu Betra Lífi í morgun.
Eldur varð í áfangaheimilinu Betra Lífi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gerði í síðustu viku úttekt á áfangaheimilinu Betra lífi sem kviknaði í í Vatnagörðum í dag. Alls bjuggu 27 manns á áfangaheimilinu en húsnæðið er skráð sem atvinnuhúsnæði.

„Við fórum í skoðun í síðustu viku í húsnæðið og erum að klára að vinna úr gögnum í því til þess að ákvarða með framhaldið. Eiganda hefur ekki verið birt skýrslan,“ segir Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hún segir að ábending hafi borist símleiðis í fyrri hluta janúar og hafi þess vegna verið ákveðið að skoða húsnæðið.

„Áður en þessi bruni kom til þá voru næstu skref hjá okkur að klára að taka saman niðurstöður okkar skoðunar og hafa samband við eiganda og birta honum niðurstöðuna og eftir atvikum ákvarða næstu skref,“ segir Aldís.

Niðurstöður skoðunarinnar áttu að vera kynntar eiganda húsnæðisins í tengslum við starfsemina sem er í húsnæðinu. Ljóst er að starfsemin verði engin á næstunni vegna brunans en engu að síður segir Aldís að niðurstöðurnar verði kynntar eiganda húsnæðisins.

Áfangaheimili í skráðu atvinnuhúsnæði

Aldís segir að áfangaheimilið sé í skráðu atvinnuhúsnæði að Vatnagörðum 16. Það eitt og sér sé ekki brot. Húsnæðið sem kviknaði í í dag var ekki á lista yfir íbúðir í atvinnuhúsnæði þar sem grunur er um að brunavarnir séu ábótavant.   

„Það var verkefni í fyrra og hittiðfyrra sem snerist um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði. Það var gefin út skýrsla í lok apríl 2022 og þar sást að það var víða búið í atvinnuhúsnæði,“ segir Aldís.

Hún segir að þar hafi verið heimilisföng sem hafi kallað á frekari eftirfylgni slökkviliðsins.

„Sú eftirfylgni er hafin en þetta húsnæði var ekki á þeim lista. Þar erum við að hafa afskipti þar sem brunavörnum er ábótavant eða grunur er um að þeim sé ábótavant,“ segir Aldís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka