Olíubílstjórar byrjuðu strax í gærkvöldi að fylla á birgðir bensínstöðva á höfuðborgarsvæðisins. Voru þá nokkrar orðnar tómar að sögn Harðar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Olíudreifingar.
Hann segir það margra daga verk að koma birgðastöðunni í eðlilegt horf. Bílstjórar verði að störfum alla helgina frá morgni til kvölds. „Ætli sólarhringur dugi ekki til að slökkva mestu eldana,“ segir Hörður.
Hann segir að bílstjórar hafi verið mjög viljugir til vinnu eftir að verkfalli Eflingarfélaga var frestað.
„Það er allt á fullu. Menn byrjuðu strax í gærkvöldi og það verður unnið alla helgina. Það er margra daga verk að ná utan um þetta verkefni,“ segir Hörður.
Hann segir að eftirspurnin hafi fallið í gær eftir mikla sölu dagana á undan. Bensínstöðvum sé stillt upp eftir mikilvægi hvað áfyllingu varðar. „Við erum með fjarlestur á birgðum. Sumar voru tómar og aðrar á leiðinni að verða það í gærkvöldi,“ segir Hörður.