Traust til Seðlabanka og heilbrigðiskerfis fellur

Seðlabankinn og heilbrigðiskerfið eru þær opinberu stofnanir sem lækka mest …
Seðlabankinn og heilbrigðiskerfið eru þær opinberu stofnanir sem lækka mest í nýrri árlegri könnun Gallup um traust til opinberra stofnana. Samsett mynd

Traust til flestra þeirra opinberu stofnana samfélagsins sem Gallup mælir árlega lækkar á milli ára. Þannig hefur traust til borgarstjórnar Reykjavíkur ekki verið jafn lágt í 15 ár. Traust á Alþingi lækkar einnig talsvert, eftir að hafa klifrað upp árin á undan, en stofnanirnar sem lækka mest eru heilbrigðiskerfið og Seðlabankinn. Landhelgisgæslan og ríkissáttasemjari hækka hins vegar lítillega á milli ára.

Í niðurstöðum sem Gallup birtir um traust til stofnanna má sjá að borgarstjórn Reykjavíkur situr á botninum hvað traust varðar, en aðeins 13% aðspurðra segjast bera mikið traust til borgarstjórnarinnar. Hafði sú tala verið 21% árið áður. Þá segjast 18% aðspurðra bera mikið traust til bankakerfisins og lækkar það um 5 prósentustig á milli ára. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Alþingis er 25% og fer niður um 11 prósentustig.

Landhelgisgæslan á toppnum líkt og áður

Þegar horft er á stofnanirnar sem hafa mest traust trónir Landhelgisgæslan á toppinum, en 90% segjast bera mikið traust til hennar. Hækkar hlutfallið um 3 prósentustig á milli ára. Háskóli Íslands mælist með 73%, líkt og embætti forseta Íslands, en Háskólinn lækkar um 3 prósentustig á milli ára meðan embætti forseta helst óbreytt. Lögreglan mælist með 69% og lækkar um 9 prósentustig á milli ára.

Graf/Gallup

Mesta lækkunin er sem fyrr segir hjá Heilbrigðiskerfinu og hjá Seðlabankanum. Heilbrigðiskerfið hefur mikið traust hjá 57% landsmanna, en lækkar engu að síður um 14 prósentustig á milli ára. Seðlabankinn mælist með 39% og lækkar um 13 prósentustig á milli ára, en síðasta ár hefur einkennst af umtalsverðri verðbólgu.

Kirkjan með 27% og dómskerfið 37% 

Af öðrum stofnunum má nefna að Þjóðkirkjan mælist með mikið traust hjá 27% aðspurðra, dómskerfið með 37% og ríkissaksóknari með 41%. Þá nýtur ríkissáttasemjari mikils trausts hjá 51% aðspurðra og hækkar um 2 prósentustig á milli ára. Vert er að geta þess að könnunin hófst viku eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sína í deilu SA og Eflingar. Lauk könnuninni svo sama dag og Landsréttur hafnaði kröfu hans um afhendingu kjörskrár og hann tilkynnti að hann myndi stíga til hliðar í deilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert