„Við komum hingað lausnamiðuð og samningsfús,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar hún mætti í Karphúsið áður en formlegar samningaviðræður milli Eflingar og SA hófust í morgun. Sagðist hún vonast til þess að dagarnir framundan myndu nýtast vel og að hægt væri að undirrita kjarasamninga áður en sunnudagurinn kláraðist.
Sólveig tók undir þá afstöðu Ástráðs Haraldssonar, setts ríkissáttasemjara í deilunni, að enn skildi himin og haf á milli deiluaðila. „Búið að leggja grunninn að því að eiginlegar samningsviðræður geta hafist. Getur verið mjög flókið að ná saman, en samninganefnd Eflingar er allavega viljug til að finna leiðir,“ sagði hún.
Með atburðum síðustu vikna, meðal annars verkföllum og dómsmálum, sagði Sólveig að Eflingu hefði tekist að komast á þann stað að eiga raunverulegar samningaviðræður, „sem er það sem Efling vildi alltaf fá að gera.“
Fundurinn hófst klukkan 10 í morgun og miðað við orð Ástráðs má búast við þéttum fundarhöldum fram undir kvöldmat, en ólíklegt er að samningsaðilar muni nokkuð tjá sig við fjölmiðla fyrr en í fyrsta lagi þá.