Landsréttur staðfesti nú rétt í þessu fjóra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfur yfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra um að greiða ætti þeim laun í samræmi við samkomulag sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, gerði við viðkomandi starfsmenn í lok ágúst 2019 um endurskoðun á launakjörum.
Yfirlögregluþjónarnir höfðuðu málið í kjölfar ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, núverandi ríkislögreglustjóra, um að afturkalla launahækkanir sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við þá í lok ágúst árið 2019. Samkomulagið náði til tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna.
Sigríður Björk tók við embættinu af Haraldi í mars 2020 en eftir að hún tók við boðaði hún að launahækkanirnar yrðu afturkallaðar og að embættið teldi sig ekki bundið því samkomulagi sem gert hefði verið við yfirlögregluþjónana.
Embættið taldi að samningarnir hefðu ekki verið í samræmi við lög. Samkomulagið fólst í því að fimmtíu fastar yfirvinnustundir færðust inn í dagvinnulaun. Þannig urðu til mun meiri lífeyrisréttindi en ella og laun lögreglumanna hjá embætti ríkislögreglustjóra hærri en laun flestra lögreglustjóra landsins. Lögreglustjórafélag Íslands gerði athugasemdir við samkomulagið á sínum tíma.
Í svari fjármálaráðherra á Alþingi fyrir um þremur árum kom fram að samkomulagið kostaði ríkissjóð 360 milljónir.
Í héraðsdómi var fallist á aðalkröfur yfirlögregluþjónanna um að embætti ríkislögreglustjóra ætti að greiða þeim laun í samræmi við samkomulagið um endurskoðun á launakjörum.