Yfirlögregluþjónar lögðu Sigríði aftur í launamáli

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur staðfesti nú rétt í þessu fjóra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfur yfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra um að greiða ætti þeim laun í samræmi við samkomulag sem fyrr­ver­andi rík­is­lög­reglu­stjóri, Har­ald­ur Johann­essen, gerði við viðkom­andi starfs­menn í lok ág­úst 2019 um end­ur­skoðun á launa­kjör­um.

Yfirlögregluþjónarnir höfðuðu málið í kjölfar ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, núverandi ríkislögreglustjóra, um að afturkalla launahækkanir sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við þá í lok ágúst árið 2019. Samkomulagið náði til tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna.

Sig­ríður Björk tók við embætt­inu af Har­aldi í mars 2020 en eft­ir að hún tók við boðaði hún að launa­hækk­an­irn­ar yrðu aft­ur­kallaðar og að embættið teldi sig ekki bundið því sam­komu­lagi sem gert hefði verið við yfirlögregluþjónana.

Embættið taldi að samningarnir hefðu ekki verið í samræmi við lög. Sam­komu­lagið fólst í því að fimm­tíu fast­ar yf­ir­vinnu­stund­ir færðust inn í dag­vinnu­laun. Þannig urðu til mun meiri líf­eyr­is­rétt­indi en ella og laun lög­reglu­manna hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra hærri en laun flestra lög­reglu­stjóra lands­ins. Lög­reglu­stjóra­fé­lag Íslands gerði at­huga­semd­ir við sam­komu­lagið á sínum tíma.

Í svari fjármálaráðherra á Alþingi fyrir um þremur árum kom fram að samkomulagið kostaði ríkissjóð 360 milljónir.

Í héraðsdómi var fall­ist á aðal­kröf­ur yf­ir­lög­regluþjón­anna um að embætti rík­is­lög­reglu­stjóra ætti að greiða þeim laun í sam­ræmi við sam­komu­lagið um endurskoðun á launakjörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert