Um 5,6% starfsfólks hjá Reykjavíkurborg telja sig hafa örugglega eða líklega orðið fyrir einelti á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar Stofnun ársins 2022 sem lögð var fyrir 9.478 starfsmenn borgarinnar í nóvember og desember sl.
Alls svöruðu 4.838 starfsmenn spurningum í könnuninni og sögðust um 270 þeirra sem tóku þátt í henni hafa mátt sæta einelti í vinnunni eða á vinnutengdum atburðum á umliðnum tólf mánuðum. Ef hlutfallið endurspeglar heildarfjölda starfsfólks hjá borginni samsvarar það því að á sjötta hundrað starfsmenn hafi orðið fyrir einelti.
Könnunin Stofnun ársins nær til tugþúsunda starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum þar sem spurt er um atriði á borð við starfsanda, launakjör, sveigjanleika í vinnu, ánægju og stolt o.fl. Voru niðurstöðurnar í borginni kynntar á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag.
Þegar spurt var um einelti sögðust 83,4% örugglega ekki hafa orðið fyrir því og 10,9% svöruðu líklega ekki. Þeir sem sögðust hafa orðið fyrir einelti á seinustu tólf mánuðum voru spurðir hver gerandinn hefði verið. 55,7% sögðu að gerandi hefði verið vinnufélagi en 36,5% sögðu gerandann hafa verið stjórnanda.
Almennt kemur borgin þó vel út úr könnuninni þegar á heildina er litið og fær yfir fjóra í einkunn á kvarðanum einn til fimm fyrir flest þau atriði sem spurt var um nema þegar spurt var um vinnuskilyrði (3,6) og launakjör (3,03), sem fá lægri einkunn. Er einkunn borgarinnar hærri í fimm þáttum heldur en hjá ríkinu og sjálfseignarstofnunum en þeir eru t.a.m. stjórnun (4,05), ímynd stofnunar (4.07), ánægja og stolt (4,25) og jafnrétti (4,37).
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.