„Aldrei séð svona illa farinn kött“

Einmana ketti var brunað til dýralæknis þegar hann fannst úti í Reykjanesbæ í afar slæmu ástandi. Hafði hann verið yfirgefinn af eigandanum og búið einn úti á götum bæjarins í þrjá mánuði.

„Ég hef aldrei séð svona illa farinn kött.“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta en Villikettir eru dýraverndunarfélag sem stendur vörð um villiketti á Íslandi en kemur að sjálfsögðu öllum kisum til hjálpar.

Sjálfboðaliðinn sem mætti á vettvang segir að ekki hafi verið hægt að mæla hitann í kettinum strax, þar sem hann hafi verið svo gífurlega kaldur að mælirinn gat ekki mælt. Hann mældist seinna 33,6 gráður.

„Hann grét af sársauka.“ segir Arndís. Voru kettinum gefin verkjalyf til að lina sársaukann en án árangurs. Þá höfðu nokkrar æðar í honum sprungið.

Kötturinn fannst í amalegu ástandi í Reykjanesbæ.
Kötturinn fannst í amalegu ástandi í Reykjanesbæ. Mynd/Aðsend

„Níð að skilja dýr svona eftir“

„Fólk á að skammast sín fyrir að hugsa ekki betur um dýrið sitt.“ segir Arndís. „Það er vitað um eigandann því kötturinn var örmerktur.“ Eigandinn hafi flutt úr húsi og skilið köttinn eftir í hverfinu, en þegar sjálfboðaliði á vegum Villikatta náði kettinum höfðu liðið allt að þrír mánuðir síðan hann var skilinn eftir.

„Þegar húskettir lenda úti kunna þeir ekki að bjarga sér eins vel og villikettir, sem fæðast í þessum aðstæðum.“ Segir hún að slæmt veðurfar seinustu missera hafi einnig skapað afar fúlar aðstæður fyrir útiketti.

Tvöföld upphæð í læknisaðstoð

Hún segir að mestur hluti starfsins fyrstu fjögur ár samtakanna, 2014 - 2018, hafi verið að gæta villikatta en að núna sé rúmur helmingur katta sem samtökin passa upp á fyrrum heimiliskettir.

Arndís segir að vandamálið hafi stóraukist síðan faraldurinn hófst og að það sé ekkert að bætast von bráðar. Að meðaltali hafi um 6 milljónir króna farið í læknisaðstoð fyrir ketti á ári en á síðasta ári hafi upphæðin verið 12 milljónir.

Mikið af góðum dýravinum

„Það þarf að styðja betur við okkur,“ segir hún. „Hvert útkall geti þá kostað um 75.000 krónur og læknisaðstoð fyrir dýrin er ekki gefins eins og allir vita sem halda dýr. Að auki þurfa vergangskisur miklu meiri læknisaðstoð þar sem þær eru oft illa farnar þegar þær koma í hús til okkar.“ 

„Við erum öll sjálfboðaliðar. Það fær enginn okkar greitt,“ segir Arndís en þegar Villikettir voru stofnaðir árið 2014 voru sjálfboðaliðar aðeins þrír en eru nú yfir þrjú hundruð. „Við eigum mikið af flottum dýravinum.“

Villikettir vilja biðla til fólks að láta vita ef það heldur að kisur í hverfinu séu heimilislausar. Finna má frekari upplýsingar um Villiketti á vefsíðu félagsins.

Kötturinn fékk að orna sér með hitateppum og ullarsokkum.
Kötturinn fékk að orna sér með hitateppum og ullarsokkum. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert