Regína Guðlaugsdóttir, fyrrverandi íþróttakennari, lést í faðmi fjölskyldunnar á Eir endurhæfingardeild 4. febrúar sl., 94 ára að aldri.
Regína fæddist á Siglufirði 6. september 1928, dóttir hjónanna Þóru Maríu Amelíu Björnsdóttur Ólsen húsfreyju og Guðlaugs Gottskálkssonar verkamanns.
Regína útskrifaðist frá Íþróttaskólanum á Laugarvatni árið 1948. Hún starfaði sem íþróttakennari bæði á Siglufirði og í Garðabæ í 50 ár frá 1948-1998. Hún sat í bæjarstjórn Siglufjarðar 1986-1990 þar sem hún tók sæti í nokkrum nefndum á kjörtímabilinu.
Regína var einn af stofnendum Félags áhugamanna um minjasafn, FÁUM, árið 1989. Megintilgangur félagsins var að byggja upp minjasafn á Siglufirði, en framtakssemi þess leiddi af sér Síldarminjasafnið sem hlotið hefur margs konar verðlaun og viðurkenningar.
Eiginmaður Regínu var Guðmundur Árnason, stöðvarstjóri Pósts og síma á Siglufirði. Hann lést árið 2014. Dætur þeirra eru Þóra og Helena. Barnabörn þeirra eru sex og barnabarnabörn eru níu.
Útför hennar verður frá Fríkirkjunni í Reykjavík 23. febrúar kl. 14.