Á meðan enn ein lægðin gengur yfir landið og regnið fýkur lárétt sitjum við Hilmar Oddsson leikstjóri í huggulegheitum yfir kaffibolla heima hjá honum. Ljóst er að þarna býr listamaður og listunnandi en myndlist er uppi um alla veggi og hljóðfæri á víð og dreif um stofuna, enda er Hilmar liðtækur tónlistarmaður í hjáverkum.
Ástríðan liggur þó fyrst og fremst í kvikmyndum, en Hilmar þarf vart að kynna enda einn af okkar fremstu leikstjórum. Eftir hann liggja myndirnar Eins og skepnan deyr, Tár úr steini og Kaldaljós, svo fáeinar séu nefndar. Nýjasta mynd hans, Á ferð með mömmu, fer í almennar bíósýningar 24. febrúar, en hugmyndin kviknaði fyrir mörgum áratugum.
Hilmar segir myndina hugsanlega sína bestu, en hann er nú kominn á flug og hyggst gera að minnsta kosti þrjár aðrar kvikmyndir áður en hann sest í helgan stein. Enda skortir hann ekki hugmyndir, nema síður sé.
„Mér finnst að ég sé að vinna að einhverju sem skiptir mig miklu máli og ég trúi því að það geti skipt aðra máli líka. Mér er ekki sama hvað ég skil eftir mig. Mér er alveg sama hvort ég verði ríkur í veraldlegum skilningi eða ekki, en ég vil að eftir standi mín verk og börnin mín. Ég lít svolítið á myndirnar mínar sem börnin mín,“ segir Hilmar og talandi um börn hans, þá ætlar sonur hans Oddur Sigþór að feta í fótspor föður síns og leggja fyrir sig kvikmyndalist. Dóttir hans Hera er Íslendingum að góðu kunn, enda hefur hún verið að gera það gott víða um heim sem leikkona.
„Dóttur minni gengur miklu betur en mér nokkurn tímann,“ segir Hilmar en Hera leikur einmitt lítið hlutverk í Á ferð með mömmu.
„Ég segi stundum í gríni að hún hafi skrifað sig sjálf inn í myndina,“ segir hann og nefnir að hlutverkið sem hún leikur hafi upphaflega átt að vera mun minna.
„Hún sagði við mig að hún væri búin að leika fyrir alls konar leikstjóra en aldrei fyrir pabba sinn, og að nú væri tækifæri. Ég hlýddi, sem betur fer, því niðurstaðan er betri mynd. Við höfðum bæði mikið yndi og gaman af þessu og eigum vonandi eftir að gera þetta af meiri alvöru síðar. Mig langar að gera mynd þar sem hún er í aðalhlutverki.“
Hilmar segir það hafa gengið afskaplega vel að leikstýra dóttur sinni.
„Hera er fagmanneskja og ég leyfi mér að segja að ég sé það líka. Þegar við erum að vinna erum við fagmenn en um leið og búið er að segja „cut“ er ég bara pabbi.“
Ítarlegt viðtal er við Hilmar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.