Flugvél Icelandair snúið við og lent í Ósló

Flugvélinni var snúið við á leiðinni frá Svíþjóð til Íslands …
Flugvélinni var snúið við á leiðinni frá Svíþjóð til Íslands og var henni lent á Gardermoen-flugvelli við Ósló. Ljósmynd/Skjáskot

Fraktvél Icelandair sem var á leið frá Norrköping í Svíþjóð til Keflavíkurflugvallar var snúið við á miðri leið í gær og lent á Gardermoen-flugvelli við Ósló í Noregi.

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við mbl.is að þetta hafi verið gert vegna tæknilegra atriða sem komu upp í miðju flugi.

„Flugmennirnir fengu tilkynningu um tæknilegt atriði og samkvæmt verklagi ákváðu þeir að fara á næsta flugvöll. Flugvirki skoðaði síðan vélina í gær um fimmleytið og hún lenti bara eðlilega,“ segir Guðni en vélinni verður aftur flogið klukkan korter yfir fjögur í dag til Liege í Belgíu þar sem hún mun sinna frekari fraktflutningum.

Allt athugað ítarlega

Að sögn Guðna var flugvélin á leið til baka úr hestaflutningum þegar tæknilegu örðugleikarnir komu upp. Guðni segist ekki vita hvers eðlis tæknilegu örðugleikarnir voru en bætir við að þetta hafi verið skoðað og að vélin hafi verið útskrifuð í dag.

„Flugbransinn snýst allur um öryggi og það er athugað allt mjög ítarlega svo það var farið yfir alla verkferlana og samkvæmt því var ákveðið að lenda á næsta flugvelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert