Pétur hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin

Pétur Gunnarsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin í ár.
Pétur Gunnarsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin í ár. Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti í dag Pétri Gunnarssyni Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu hans Játningarnar eftir Jean-Jacques Rousseau.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að þýðingin hafi staðið undir væntingum allra þeirra sem láta sig varða íslenskt mál og möguleika þess til tjáningar.

Æðsti dómarinn

„Í fyrstu bók Játninganna ritar Rousseau þetta: „Dómsdagslúðurinn má gjalla þegar honum líst og ég mun mæta mínum æðsta dómara með þessa einu bók í hendi.“ Með þessa góðu þýðingu Játninganna getur Pétur Gunnarsson mætt sínum æðsta dómara og fengið sér sæti við hlið Rousseau,“ segir í umsögninni.

Bandalag þýðenda og túlka veitir verðlaunin í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda en dómnefndina skipa þau Guðrún H. Tulinius, Elísabet Gunnarsdóttir og Þórður Helgason.

Verðlaunin voru sett á stofn til þess að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur.

Aðrir tilnefndir þýðendur í ár voru Árni Óskarsson, fyrir þýðingu sína Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu, Friðrik Rafnsson, fyrir þýðingu sína Svikin við erfðaskrárnar, Heimir Pálsson, fyrir þýðingu sína Norrlands Akvavit, Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Uppskrift að klikkun, Silja Aðalsteinsdóttir, fyrir þýðingu sína Aðgát og örlyndi og Soffía Auður Birgisdóttir, fyrir þýðingu sína Útlínur liðins tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert