Samninganefndir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins funda nú ásamt settum ríkissáttasemjara í kjaradeilu þeirra í Karphúsinu.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, mun gefa stutta yfirlýsingu síðdegis í dag um efni fundarins.
Er það svipað fyrirkomulag og í gær en hann hefur fyrirskipað svokallað fjölmiðlabann og hafa Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA því ekki rætt við fjölmiðla síðan á fimmtudaginn.
Fundur hófst klukkan tíu í morgun en í viðtali við fréttamenn í gær sagði Ástráður að alvörukjaraviðræður væru hafnar.
Hann tók þó fram að hann hefði viljað komast yfir fleiri mál á fundinum í gær en raun varð. Samninganefndir byggðu tillögur sínar á gjörólíkum forsendum. Deiluaðilar væru þó farnir að ræða launatöflur og önnur smáatriði sem raunverulega skiptu máli í kjaraviðræðum.