„Það er þungt í okkur hljóðið“

FFR, Isavia og SA hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara og …
FFR, Isavia og SA hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara og hafa fundað fimm sinnum hjá stofnuninni. mbl.is/Golli

Unnar Örn Ólafsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, viðurkennir að hljóðið í félagsmönnum sé þungt eftir langar kjarasamningaviðræður við Isavia og SA sem eru komnar til ríkissáttasemjara.

Í gærkvöldi birtist boð á vefsíðu félagsins til „áríðandi félagsfundar“ sem fór fram í gærkvöldi. Unnar vildi ekki tjá sig um það sem fram fór á fundinum og segir samninganefndina einfaldlega hafa viljað leita til baklandsins eftir nokkra fundi með ríkissáttasemjara.

Segist hafa fundið fyrir samstöðu

„Það var allavega mjög góð mæting á fundinn í gær og mjög góð samstaða,“ segir Unnar en næsti fundur samninganefndarinnar með fulltrúum SA og ISAVIA er á þriðjudaginn.

Í færslu á Facebook-síðu félagsins er sagt að mæting á fundinn hafi verið söguleg og félagsmönnum sagt að næstu skref verði send í tölvupósti.

Óþreyjufullir og yfirvinnubann til umræðu

Unnar vildi ekkert gefa upp spurður hvort félagsmenn séu að verða óþreyjufullir eftir langvarandi samningaviðræður.

„Við erum ekkert að gefa neitt út að svo stöddu. En það er þungt í okkur hljóðið sem er ástæða fyrir fundinum í gær.“

Heimildir mbl.is herma að það hafi komið til tals meðal félagsmanna og samninganefndar að beita yfirvinnubanni, ef fram heldur sem horfir í viðræðunum. Slíkt myndi hafa víðtækar afleiðingar bæði á alþjóðlegt flug frá Keflavík og Akureyri og einnig á innanlandsflug. 

Unnar segir slíkt bann þess vegna vera úrræði sem félagið vilji eftir fremsta megni komast hjá því að beita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert