Vonbrigði í Karphúsinu

Ástráður Haraldsson stendur í ströngu í Karphúsinu eftir að hann …
Ástráður Haraldsson stendur í ströngu í Karphúsinu eftir að hann var settur ríkissáttasemjari. mbl.is/Hákon Pálsson

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, kveðst óttast að verkföll haldi áfram á mánudag, verði morgundagurinn í Karphúsinu eins og dagurinn í dag.

„Ef okkur gengur ekki betur á morgun að hreyfa málið þá óttast ég að það muni gerast,“ segir hann, spurður hvort verkföll muni halda áfram á mánudaginn ef ekki verði komist að niðurstöðu í kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á morgun.

Fundi Eflingar og SA lauk í dag klukkan hálf sex en Ástráður lýsir vonbrigðum sínum vegna framgangs mála í Karphúsinu.

Deiluaðilar munu setjast aftur við samningaborðið á morgun klukkan tíu og kveðst hann vonast til að komist verði að einhvers konar niðurstöðu þá.

Vonast eftir engum hurðaskellum

Að sögn Ástráðs skiluðu viðræður dagsins ekki miklum árangri.

„Viðræðunefndin, sem aðilarnir hafa leitt saman, hefur verið að vinna að skoðun á útfærslu á samningi sem myndi henta betur miðað við félagsfræði Eflingar og hefur unnið að mikilli samviskusemi í allan dag og menn hafa nálgast verkefnið með jákvæðum hætti.

En í lok dags verð ég að lýsa vonbrigðum – þetta hefur ekki þokast mjög mikið og það er enn þá mikið bil á milli samningsaðila.“

Ástráður segir að miðað við þann frest sem er til staðar núna sé aðeins morgundagurinn eftir til að koma í veg fyrir áframhaldandi verkfall. 

„Sáttasemjari er alltaf tilbúinn að funda svo ef það myndast einhver glufa eða tækifæri reynum við að nota þau, þannig að ég ætla að vona að ef þetta fer svona eins og við óttumst gerist það ekki með þannig hurðaskellum að það sé ekki til leið til baka.“

Hann segist ekki vilja tjá sig um hvað stoppi viðræðurnar frá því að miða áfram en segir aðilana hafa mjög mismunandi sýn á hvaða svigrúm sé til staða til launahækkunar. 

Lögfræðitrix ekki til mikils gagns

Spurður hvort það komi til greina að halda við miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, og skjóta úrskurði Landsréttar um afhendingu kjörskrár Eflingar til Hæstaréttar, segir Ástráður ekki velta þeim möguleikum fyrir sér.

„Ég er fyrst og fremst að hugsa um að leiða til lykta kjarasamræður. Hér eru mér ekki einhver lögfræðitrix til mikils gagns. Ég ætla ekki að úttala mig um það hvað kemur til greina og hvað kemur ekki til greina.“

Ástráður segir þó stemninguna í samningsaðilum vera góða og að allir séu að vinna af jákvæðum forsendum. Allir reyni að láta sér detta í hug einhverjar jákvæðar leiðir til að brúa bilið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert