Í amstri dagsins nú í skammdeginu er gott að geta sest niður í rólegheitum og skapað eitthvað með höndunum. Hjá Noztra er tilvalið að hitta vini, maka eða aðra ástvini og mála á bolla, diska, skálar og styttur; muni sem fólk síðar fær að eiga. Blaðamaður ákvað að mæta með nokkrar vinkonur og spreyta sig á leirmálun og valdi sjálf stóra skál, en nóg var úrvalið. Sköpunarkrafturinn fékk að njóta sín undir ljúfum tónum og góðu spjalli og eftir tvo tíma voru fjögur listaverk tilbúin í brennsluofninn!
Einn eigenda Noztra, Unnur Knudsen, tók vel á móti hópnum og útskýrði hugmyndina að baki Noztra.
„Við höfum rekið Noztra núna í rúmt ár og það hefur gengið ljómandi vel. Við lögðum upp með það konsept að hafa hér skapandi smiðju. Við erum hér með forbrenndan leir og fólk kemur hingað og málar hann, skilur hann svo eftir og við glerjum og brennum. Fólk sækir svo muninn sinn nokkrum dögum seinna,“ segir Unnur.
„Hér á fólk að koma til að gleyma sér við listiðkun sem hentar öllum, óháð getustigi. Þó að eftirspurn sé mikil er hér ekki kaffihús eða krá,“ segir Unnur en bendir á að hægt sé þó að fá sér drykk eða kaffisopa.
Fólk nýtur þess mjög að fá að skapa eitthvað fallegt, að sögn Unnar.
„Ég sé hversu valdeflandi það er fyrir einstakling að sjá einhverja afurð eftir sig og að vinna að einhverju skapandi. Fólk gleymir sér í sköpuninni og það er svo nærandi fyrir sálina. Ég var einmitt svo spennt fyrir því að færa þetta konsept út í samfélagið,“ segir Unnur.
„Ég get ekki lýst því hversu vænt mér þykir um að fá viðbrögð frá fólki sem hingað kemur. Um daginn kom hingað fjölskylda sem sagði við mig á eftir að þau hefðu átt hér bestu stund sem þau höfðu nokkurn tímann átt!“ segir hún.
Noztra er opið alla daga milli kl. tíu og sjö og segir Unnur að nóg sé að gera, enda kjósa sumir hópar að koma að degi til, en aðrir seinni part dags. Um helgar má sjá heilu fjölskyldurnar og vinahópana.
„Fyrirtækja- og skólaheimsóknir eru hér gjarnan á virkum dögum og hér eru stundum smiðjur fyrir börn sem þurfa séraðstoð. Fólk sem er komið á eftirlaun mætir líka hingað að mála, og hingað koma oft hjón til að eiga góða stund saman. Svo kemur fólk hingað á stefnumót og það finnst mér geggjað! Ég hef heyrt um fólk sem kemur hingað á fyrsta stefnumót. Ég var að hugsa hvort ég ætti kannski að auglýsa staðinn á Tinder,“ segir Unnur og brosir.
Ítarlegt viðtal er við Unni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.