Búin að fá eina verkfallsæfingu

Eldsneytisbirgðir eru ágætar eins og er, á bensínstöðvum Olís og …
Eldsneytisbirgðir eru ágætar eins og er, á bensínstöðvum Olís og N1. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Olís segir að vel hafi tekist að fylla á birgðir frá því að Efling tilkynnti um verkfallsfrest á fimmtudagskvöld. Bensínstöðvarnar séu í ágætis standi en það geti þó fljótt breyst eins og raunin varð í síðustu viku.

Svipuð staða er uppi á teningnum hjá N1 en framkvæmdastjóri segir að starfsfólk Olíudreifingar hafi unnið hörðum höndum síðustu daga við að fylla á tanka.

Fyrirtækið reyni nú að undirbúa sig eins vel og hægt sé fyrir komandi daga.

Stefnir í áframhaldandi verkfall

Eins og áður hefur verið greint frá slitnaði upp úr kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar í dag og hefur ekki verið boðað til nýs fundar á milli þeirra. Því er ljóst að verkfallsaðgerðir Eflingar munu hefjast aftur á miðnætti í kvöld að öllu óbreyttu.

Verkfallið nær til fé­lags­fólks í Efl­ingu á Íslands­hót­el­um, Berjaya-hót­elkeðjunni, Ed­iti­on-hót­el­inu og hjá Sam­skip­um, Ol­íu­dreif­ingu og Skelj­ungi.

Eins og frægt er fóru olíubílstjórar í verkfall á hádegi á miðvikudag í síðustu viku. Á fimmtudaginn komust SA og Efling svo að samkomulagi um að fresta öllum verkfallsaðgerðum fram á miðnætti í kvöld.

Á þeim tíma sem verkfallið stóð yfir fóru eldsneytisbirgðir fljótt að tæmast á bensínstöðvum og sums staðar var ekkert eftir.

Munu ekki líða margir dagar

„Við erum í einhverjum skilningi búin að fá eina æfingu í viðbrögðum undir þessum kringumstæðum og fyrir vikið áttum okkur aðeins betur á því hvað við getum og hvað við getum ekki gert í þessum kringumstæðum,“ segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís.

Að sögn Frosta hefur tekist nokkuð vel að fylla á tankana frá því að verkfallinu var frestað. 

„Fyrir vikið förum við inn í vikuna í ágætis standi, en alveg eins og kom í ljós á þessum fáu dögum sem liðu í verkfalli þá munu auðvitað ekki líða margir dagar þangað til að birgðastaða, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, fer að verða þröng.“

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, tekur í sama streng en að hans sögn var búið að fylla á hjá flestum bensínstöðvum á hádegi á föstudag. 

„Starfsfólk Olíudreifingar hefur unnið að því núna ötulum höndum síðustu þrjá daga að setja eldsneyti á tankana þannig að við erum aftur vonandi búin undir það sem koma skal,“ segir Hinrik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert