Söguhetjan, Ásgeir, í víkingaskáldsögu breska blaðamannsins Johns Inghams, Blood-Eagle Saga, heitir eftir manni sem lesendur Morgunblaðsins ættu að kannast við, Ásgeiri Sverrissyni, sem lengi vann hér á ritstjórninni en er nú hjá Alþýðusambandi Íslands.
Þeir John eru vinir og hafa þekkst í meira en þrjátíu ár. „Ég sagði Ásgeiri ekki frá þessu fyrir fram en nafnið kom fljótt upp í hugann enda hljómmikið og gott íslenskt nafn. Ég áttaði mig hins vegar ekki á því fyrr en nýlega að maður segir Ásgeir en ekki Asgeir, eins og ég hef kallað vin minn í þrjá áratugi. Hann hefur aldrei leiðrétt mig.“
John og Ásgeir kynntust 1991 í blaðamannaferð um Bandaríkin á vegum Nató. Kalda stríðinu átti þá formlega að vera lokið, þannig að blaðamönnum frá ríkjum Varsjárbandalagsins var líka boðið. „Það var meinfyndið en Rússinn í hópnum setti allt á annan endann fyrsta daginn í Pentagon með því að hverfa. Öryggisliðið fór á yfirsnúning: „Það er týndur Rússi í húsinu!“ Ég held að aumingja maðurinn hafi bara farið að fá sér kaffi.“
Hann hlær.
Vel fór á með John og Ásgeiri í ferðinni og hafa þeir haldið sambandi fram á þennan dag. „Ásgeir talar alveg ótrúlega góða ensku og býr að mörgum ólíkum mállýskum. Hann getur talað ensku eins og Englendingur, eins og Íslendingur og eins og maður frá norður- og suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég held að hann tali líka frönsku og spænsku. Ég dauðskammast mín þegar ég er með honum.“
Nánar er rætt við John Ingham í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.