Lægð gengur yfir landið í dag og hefur Veðurstofa Íslands nú einnig gefið út veðurviðvaranir fyrir Suðurland, Faxaflóa og Miðhálendið.
Gul viðvörun tekur fyrst gildi á Faxaflóa á hádegi en klukkan 15 á Suðurlandi.
Síðdegis taka svo gildi viðvaranir á Suðausturlandi og Miðhálendi, og í kvöld á Austfjörðum.
Spár gera ráð fyrir að miðja lægðarinnar verði yfir Þorlákshöfn upp úr hádegi, en fari síðan í austnorðaustur til Austfjarða.
Vestan hvassviðri eða stormur gengur yfir Suðurlandið með vindhraða á bilinu 18 til 23 m/s. Búast má við talsverðri snjókomu með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum til fjalla í fyrstu en síðar á öllu svæðinu.