Engra frétta er að vænta úr Karphúsinu fyrr en síðdegis að sögn setts ríkissáttasemjara. Fundarhöld hófust klukkan 10 i morgun og gætu staðið fram á kvöld.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, lýsti árangri viðræðna gærdagsins sem vonbrigðum í samtali við mbl.is. Bilið á milli samningsaðila væri mikið og þeir ósammála um hve mikið svigrúm væri til launhækkana.
Þó dró til tíðinda um miðjan dag þegar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sneri aftur að samningaborðinu eftir að hafa þurft frá að hverfa vegna veikinda.
Eins og í gær munu fjölmiðlar hafa takmarkaðan aðgang að Eflingu og SA á meðan viðræður standa yfir í Karphúsinu. Ástráður vill ekki gefa neinar nákvæmar tímasetningar spurður hvenær hann geri ráð fyrir að viðræðum ljúki.
Að óbreyttu munu verkföll Eflingar hefjast aftur á morgun en þeim var frestað fram yfir helgi á fimmtudaginn. Það mun meðal annars valda röskun á olíudreifingu og hótelherbergjaþrifum.