Vindur mun blása úr ýmsum áttum á landinu í dag og víða má búast við slyddu eða snjókomu en ört dýpkandi lægð nálgast okkur úr suðvestri. Gera spár ráð fyrir að miðja lægðarinnar verði yfir Þorlákshöfn upp úr hádegi, en fari síðan í aust-norðaustur til Austfjarða.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Austfirði og Suðausturland þar sem vestan og norðvestan stormi er spáð með 20 til 25 m/s. Má þar búast við snörpum vindhviðum við fjöll, 30 til 35m/s.
Getur þetta verið hættulegt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og er fólk hvatt til að sýna aðgát.
Viðvörun tekur gildi klukkan 16 á Suðausturlandi og er til sex næsta morgun, en klukkan 21 um kvöldið á Austfjörðum, en er sömuleiðis til klukkkan sex næsta morgun.