Lágmarkslaun eigi að vera sambærileg um allt land

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, telur að lágmarkslaun eigi að vera sambærileg um landið allt en kveðst þó vona að Samtök atvinnulífsins komi til móts við Eflingu til að hægt verði að semja.

Þetta kom fram á Sprengisandi á Bylgjunni fyrir hádegi í dag þar sem að kjaramálin og misskipting innan samfélagsins voru til umræðu.

„Ég er kannski ekki að segja að það eigi að vera mismunandi lágmarkslaun eftir landsvæðum, nei. Ég held að lágmarkslaun þurfi að vera sambærileg og sömu fyrir landsvæði,“ sagði Kristján spurður út í afstöðu sína gagnvart kröfu Eflingar um uppbót vegna óvenju mikils húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu

Fullviss um að það verði hægt að leysa deiluna

Að óbreyttu hefjast verkföll aftur á miðnætti en fundur samninganefndir Eflingar og SA með settum ríkissáttasemjara hófst í morgun klukkan 10. 

„Ég er fullviss um að það er hægt að leysa þessa deilu. Það er hægt að ná kjarasamningi. Ef að stífni Samtaka atvinnulífsins minnkar, og þau koma til móts við stöðu þessa hóps, þá er auðvitað hægt að ná að gera kjarasamning,“ sagði Kristján, sem var þó ekki bjartsýnn á að það myndi hafast fyrir morgundaginn.

„Staða fólksins sem Efling er að semja fyrir, eins og víða annars staðar, er auðvitað erfið. Við erum búin að vera að glíma við háa verðbólgu. Fólk er að glíma við mjög íþyngjandi húsnæðiskostnað hér á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar. Það er auðvitað sú staða sem þarf að bregðast við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert