Landsréttur staðfesti fyrir helgi sex mánaða fangelsisdóm manns sem var sakfelldur fyrir kynferðisbrot og hótanir. Hann framdi brotin sem starfsmaður sambýli fatlaðra .
Maðurinn tók upp myndskeið af íbúa sambýlisins handleika kynfæri sín og sendi þau á samstarfsmann sinn. Samstarfsmaðurinn sagði brotamanninum að hann myndi greina forstöðumanni stofnunarinnar frá því að hann hafi sent sér myndskeiðið en í kjölfar þess hótaði brotamaðurinn samstarfsmanni sínum.
„Eg er lika fara berja þig svo alvarlega“, „eg er buinn að hringja lika i folk [B] minn“ og „ef þu ætlar að jarða mitt mannorð þar sem eg hef reynt að standa mig eins og eg get, þa mun eg gjorsamlega ganga fra þer“ er meðal þess sem brotamaðurinn sendi á samstarfsmann sinn að því er fram kemur í dómnum.
Landsréttur taldi þó ekki lögheimild fyrir því að refsa manninum sérstaklega fyrir brot sem opinber starfsmaður í skilningi almennra hegningarlaga í ljósi þess að hann hafi ekki getað tekið eða haft áhrif á ákvarðanir um réttindi og skyldur heimilismanna á sambýlinu sem er skilyrði þeirrar refsiheimildar.
Manninum var gert að greiða brotaþola 400.000 krónur í miskabætur auk þrjá fjórðu hluta áfrýjunarkostnaðar málsins.