„Djöfull brá mér,“ sagði Róbert Óskar Cabera þegar hann lenti í því skemmtilega atviki að stærðarinnar hvalur kom upp beint fyrir framan hann við mynni hafnarinnar í Hafnarfirði. Róbert var þá á kajak með vini sínum en litlu munaði að sporður hvalsins hvolfdi kajakbát Róberts.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndskeiðið þegar hvalurinn gerði vart við sig beint fyrir framan Róbert en eiginkona Róberts, Hrönn Egilsdóttir, deildi því á Twitter.
Róbert segir í samtali við mbl.is að honum hafi brugðið töluvert við að sjá hvalinn koma upp svona nálægt sér en að hann hafi þó ekki orðið smeykur.
„Við vorum búnir að vera fylgja honum eftir í smá stund og hann synti í kringum okkur. Þeir synda hratt svo það var erfitt að sjá hvar hann kemur upp. Svo héldum við að hann væri að koma upp annars staðar en svo var hann búinn að hringsóla meira í kringum okkur svo við áttum ekkert von á honum þarna.“
Að sögn Róberts kom hvalurinn nokkrum sinnum upp og gerði vart við sig en hann segir það hafa verið mjög skemmtilegt að verða vitni að þessu.
„Þeir eru ekki vanir að stökkva þessir hvalir, en ef hann hefði rekið sporðinn í mann hefði maður bara klifrað aftur upp í bátinn.“
Róbert segir að þeir hafi elt hann um nokkra stund áður en hvalurinn synti á harðaspretti út úr höfninni. „Við áttum ekki roð við honum.“
Helga Steingerður Sigurbjörnsdóttir, íbúi við Norðurbakka í Hafnarfirði, varð vitni að stefnumóti Róberts og hvalsins og smellti af nokkrum myndum af atvikinu. Hún segir það hafa verið mjög skemmtilegt að verða vitni að þessum atburði.