Nokkrir tugir manns voru fastir á Hellisheiðinni í dag vegna veðurs og vegna tíu bíla áreksturs sem varð við Hveradali á Hellisheiði. Björgunarsveitir eru nú við störf á vettvangi og ganga björgunaraðgerðir vel.
Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is en hann segir að nú sjái fyrir endann á björgunaraðgerðum.
Eins og áður var greint frá varð tíu bíla árekstur á Hellisheiði fyrr í dag þar sem fjórir slösuðust. Fjölmargir festust á veginum við það.
„Það er fjöldi björgunarsveita við störf á Hellisheiði og í Þrengslunum. Í kjölfarið á þessum árekstri urðu talsverð vandræði og bílar voru að festa sig hægri, vinstri. Það er enn verið að ferja fólk niður, það er rúta þarna föst og talsvert af fólki.“
Jón Þór segir fjölda fólks sem festust nema tugum en segist ekki vita nákvæma tölu yfir fólk sem festist á Hellisheiðinni.