Óheiðarlegt að segjast vera bjartsýn

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Karphúsinu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum á síðustu dögum verið þarna að leggja okkur fram til þess að finna lausnir og leiðir. Þær lausnir og leiðir sem við ræddum, og vorum að vinna með, voru allar innan kostnaðar Samtaka atvinnulífsins við aðra kjarasamninga,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því fyrr í dag að kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefði verið slitið án samnings.

Halldór Benjamín fari með rangt mál

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, ræddi við blaðamenn eftir að Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni, greindi frá viðræðuslitum.

Sagði Halldór Benjamín SA hafa boðið Eflingarfólki sérstakan Eflingarsamning en að kröfur Eflingar hefðu verið meiri en SA hafi getað samþykkt.

„Við vor­um kom­in al­veg á þanþol þess ramma við að út­búa það sem við köll­um Efl­ing­ar­samn­ing fyr­ir Efl­ing­ar­fólk. Ef að þar hefði við setið hjá viðsemj­anda okk­ar trúi ég því að við hefðum náð sam­an hér í dag, en þegar á hólm­inn var komið voru kröf­urn­ar ein­fald­lega miklu meiri,“ sagði Halldór Benjamín.

Sólveig hafnar þessu algerlega: „Þetta er einfaldlega rangt með farið hjá honum.“

Mögulega aldrei vilji til staðar

Sólveig segir að um tíma hafi viðræðurnar verið að mjakast áfram, en svo hafi eitthvað skyndilega breyst hjá SA.

„Við trúðum því um tíma að við værum að mjakast áfram. En svo fór í dag að stemningin breyttist skyndilega og sá vilji sem að mögulega var til staðar hvarf af hálfu viðsemjanda okkar.“

Spurð hvers vegna hún telji að stemningin hafi breyst í dag segir Sólveig:

„Mögulega var aldrei neinn raunverulegur vilji til staðar, auðvitað getur það verið.“

Það var ekkert sérstakt sem kom upp á, á milli samningsaðila?

„Ekki af okkar hálfu. Við höfum bara verið þarna í mjög góðri trú og með mikinn vilja til að ljúka þessu,“ segir Sólveig.

Ekki boðað til nýs fundar

Ástráður sagði við blaðamenn í dag að hann teldi ekki ástæðu að svo stöddu að boða til nýs fund­ar í kjaradeilunni. 

Spurð hvort hún telji að deiluaðilar muni geta hafið viðræður á ný í vikunni segir Sólveig:

„Á þessum tímapunkti er það bara óheiðarlegt af mér að segjast vera bjartsýn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert