Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst í dag vegna veðurs. Þetta kemur fram á vef Isavia.
Síðasta flug dagsins á Reykjavíkurflugvelli var flug Norlandair frá Bíldudal til Reykjavíkur en flugvélin lenti klukkan 16.09.
Alls hefur níu flugferðum verið aflýst frá Reykjavíkurflugvelli, fimm flugferðum aflýst frá Akureyrarflugvelli og þremur flugferðum aflýst frá Egilsstaðaflugvelli. Enn sem komið er hefur engu millilandaflugi verið aflýst.
Eins og áður hefur verið greint frá gengur lægð yfir landið um þessar mundir og hefur Veðurstofa Íslands gefið út veðurviðvaranir fyrir Suðurland, Faxaflóa, Austfirði og Miðhálendið.