Segir SA hafa verið komin á þanþol síns ramma

Halldór ræddi við blaðamenn í Karphúsinu.
Halldór ræddi við blaðamenn í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fór vongóður inn í þessar viðræður undanfarna daga og þess vegna er þessi niðurstaða mér mjög mikil vonbrigði,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), við blaðamenn í Karphúsinu fyrir skömmu.

Ástráður Har­alds­son, sett­ur rík­is­sátta­semj­ari í kjara­deilu Efl­ing­ar og SA, tilkynnti blaðamönnum í Karphúsinu klukkan fimm í dag að viðræðum hefði verið slitið án samkomulags.

„Kröfurnar einfaldlega miklu meiri“

Halldór segir SA hafa leitað allra leiða til að ná samningum.

„Við vorum komin alveg á þanþol þess ramma við að útbúa það sem við köllum Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk. Ef að þar hefði við setið hjá viðsemjanda okkar trúi ég því að við hefðum náð saman hér í dag, en þegar á hólminn var komið voru kröfurnar einfaldlega miklu meiri.“

Segir Halldór að SA myndi ekki geta litið í augun á þeim viðsemjendum sem samtökin hafa þegar gengið frá kjarasamningi við, hefðu þau fallist á kröfur Eflingar.

„Við getum ekki réttlætt það að eitt stéttarfélag semji um talsvert hærri laun en öll önnur stéttarfélög á landinu um sömu störf. Það er staða sem Samtök atvinnulífsins geta ekki tekið þátt í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert