Segja SA hafa siglt viðræðunum í strand

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins sigldu í dag kjaraviðræðum við samninganefnd Eflingar í strand. Samtökin reyndust óviljug til að koma til móts við Eflingu, jafnvel þótt aðeins væri um að ræða aðlaganir innan þess ramma sem þegar hefur verið samið um við önnur stéttarfélög.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem að Efling sendi frá sér rétt í þessu en eins og áður hefur verið greint frá var kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar slitið í dag þar sem ekki var komist að samkomulagi.

Munu verkfallsaðgerðir því hefjast aftur á miðnætti að öllu óbreyttu. 

Allt breyttist í dag

Í yfirlýsingunni segir að gangur hafi verið í viðræðunum á föstudag og laugardag en í dag hafi blaðinu verið snúið við. Að mati Eflingar lagði samninganefndin sig alla fram til að koma að tillögum til lausna og þar með teygt sig eins langt og hún gat.

„Við höfum bent á ótal leiðir til aðlögunar á gildandi kjarasamningum að okkar aðstæðum og samsetningu. Því hefur öllu verið hafnað, eða verið svarað með útspilum sem eru vísvitandi móðganir ætlaðar til að keyra þessa tilraun í þrot. Á þeim nótum lauk deginum í dag, þar sem við skynjuðum stórbreytt og verra andrúmsloft af hálfu Samtaka atvinnulífsins heldur en í gær og fyrradag.“

Þá kemur fram að verkfallsaðgerðir félagsfólks í Eflingu á Íslandshótelum, Berjaya-hótelkeðjunni, Edition-hótelinu og hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hefjist að nýju á miðnætti í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert