Ökumaður var stöðvaður í nótt í miðbæ Reykjavíkur vegna gruns um ölvun. Maðurinn var handtekinn á staðnum og fluttur á lögreglustöð þar sem hann neitaði að gefa blóðsýni.
Ökumaðurinn gerði tilraun til að sparka í einn lögreglumann og hrækja á annan. Hann var þá vistaður í fangaklefa þar til hægt var að ræða við hann.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Annar ökumaður var stöðvaður í nótt í miðbæ Reykjavíkur vegna gruns um ölvun. Maðurinn reyndist síðan vera undir áhrifum fíkniefna. Þegar að honum var flett upp í kerfi lögreglu kom í ljós að búið væri að svipta hann ökuréttindum. Maðurinn var þá handtekinn og fluttur upp á lögreglustöð þar sem framkvæmd var blóðrannsókn.
Jafnframt kemur fram í dagbók lögreglu að annar ökumaður hafi verið stöðvaður í miðbænum sem reyndist sviptur ökuréttindum.
Þá voru tveir aðrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur. Einn blés í mæli lögreglu og mældist undir mörkum og var gert að stöðva akstur. Annar var handtekinn á staðnum og fluttur á lögreglustöð.