Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning liðna nótt vegna manns sem svaf ölvunarsvefni í anddyri á hóteli í miðbæ Reykjavíkur.
Þegar lögregla kom á vettvang var ákveðið að handtaka manninn sökum ástands hans, en hann var fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var skýrsla af honum.
Þá var einnig tilkynnt um mann sem virtist vera að stela á öðru hóteli í miðbænum. Lögregla fór á vettvang og var maðurinn handtekinn vegna gruns um þjófnað. Hann var þá fluttur á lögreglustöð, en var látinn laus eftir að tekin var af honum skýrsla.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Einnig kemur fram í dagbók lögreglu að leigubílstjóri hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna deilna við viðskiptavin sem var ósáttur með startgjaldið á leigubifreiðinni.
Mælirinn hélt áfram að ganga á meðan aðilarnir deildu, en komust leigubílstjórinn og viðskiptavinurinn ekki að samkomulagi um verð fyrir ferðina.
Leigubílstjórinn ætlaði þá að kæra viðskiptavininn fyrir fjársvik, en í dagbók lögreglu kemur fram að enn sé beðið eftir kæru.
Þá hafði lögreglan afskipti af manni sem var ofurölvi í verslun í Breiðholti. Sýndi hann ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki og viðskiptavinum.
Starfsmenn óskuðu eftir því að manninum yrði vísað út en neitaði hann að gefa upp nafn sitt og kennitölu við lögreglu.
Var hann þá handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.
Lögregla hafði einnig afskipti af manni sem var grunaður um að stela fatnaði í verslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Sá reyndist undir töluverðum áhrifum og var því vistaður í fangaklefa þar til hægt var að ræða við hann.