„Það er alltaf spurning hversu langt verkbann eða verkfall verður áður en við lendum í vandræðum með að útvega mat, bæði í leikskóla og grunnskóla og í frístundastarfi,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
„Það sem mun hafa hve mest áhrif er olíudreifingin. Það er nú bara hreinlega til að tryggja matvöru,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) samþykkti einróma að leggja það til við aðildarfyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu og hófst atkvæðagreiðsla um tillöguna í dag.
„Ef það kemur til verkbanns þá hefur það takmörkuð áhrif í upphafi,“ segir Helgi.
Hann segir að í allmörgum grunnskólum og leikskólum þurfi starfsfólk skólans sjálft að útvega matvæli fyrir mötuneyti skólanna.
„Þá snýst það bara um hversu lengi birgjarnir hafi olíu á bílunum til þess að koma matvöru til okkar.“
„Skólamatur er okkar stærsti birgi sem við erum með aðkeypta matarþjónustu frá, hann er í Reykjanesbæ þannig það er ekki Eflingarfólk þar,“ segir Helgi en bætir við að verið sé að skoða hlutfall starfsfólks Eflingar hjá öðrum birgjum sem sinna skóla- og frístundasviðs borgarinnar.
Hvað varðar þrif í skólum Reykjavíkur segir Helgi að um fjórðungur starfsmanna þess fyrirtækis sem sér um ræstingar hjá flestum skólum í Reykjavík sé í Eflingu, hinir séu í Hlíf.
„Þannig það mun hægja á þjónustunni hjá þeim, en á að vera viðunandi,“ segir Helgi.
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, segir í skriflegu svari til mbl.is að skólar og leikskólar séu almennt þrifnir af félagsfólki Eflingar sem leggja muni niður störf á hádegi 28. febrúar, verði verkfall samþykkt.
„Við vitum ekkert um hvort Efling mun veita undanþágur en verði af verkföllum þá munu skólar væntanlega loka, strax eða fljótlega. Það hefur mikil áhrif á foreldra á vinnumarkaði ef börn ganga ekki í skóla,“ segir Ragnar.
Ragnar segir að allt Eflingarfólk eigi aðild að vinnudeilunni við SA og njóti góðs af niðurstöðunni en Efling mun ekki greiða neina styrki úr vinnudeilusjóði til félagsfólks vegna verkbanns.
„Þetta Eflingarfólk er starfandi í fyrirtækjum sem hafa þegar orðið eða verða síðar fyrir verulegum áhrifum af verkföllum, t.d. vegna olíuskorts, skorts á aðföngum eða munu jafnvel loka vegna verkfalls ræstingafólks. Það kemur því nokkuð á óvart að Efling ætli að neita þessu félagfólki sínu um styrki komi til þess að það taki þátt í vinnustöðvuninni,“ segir Ragnar.