„Ég ligg bara undir feldi“

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar, fylgist …
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar, fylgist með þróun mála á hliðarlínunni. mbl.is/Hákon Pálsson

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA), segir næstu skref af hans hálfu í deilunni ekki liggja fyrir, en hann fylgist með á hliðarlínunni.

Kjaraviðræðunum var slitið í gær og verkföll hótelstarfsmanna og olíubílstjóra hófust aftur á miðnætti.

Í morgun greindi Morgunblaðið svo frá því að stjórn SA hefði samþykkt að leggja það fyrir aðildarfyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu og hefst atkvæðagreiðsla um tillöguna í dag.

„Það hefur allt áhrif“

Ástráður sagði í gær, eftir að viðræðum var slitið, að hann sæi ekki ástæðu til að boða til nýs fundar að svo stöddu, en hann myndi fylgjast með þróun mála.

Aðspurður hvort yfirlýsing SA um verkbann sé ekki tilefni til að boða til fundar með deiluaðilum, segir Ástráður það eitthvað sem verði að meta, en það liggi ekki fyrir.

Enn sem komið er hefur þessi yfirlýsing þá ekki haft áhrif á stöðuna?

„Það hefur allt áhrif. Þetta er eitthvað sem verður að skoða með tilliti til þess hvernig málin þroskast.“

Verið að skoða allar mögulegar leiðir 

Hann veit ekki hvort hann mun taka ákvörðun í dag um frekari skref eða fundarboð.

„Ég ligg bara undir feldi,“ segir Ástráður en hann ætlar að fylgjast með á hliðarlínunni og sjá hvernig málin þróast hjá báðum aðilum.

Spurður hvort það sé ekki tilefni til að að grípa inn í sem fyrst í ljósi verkfalla og yfirvofandi verkbanns segir Ástráður:

„Það er tilefni til að skoða allar mögulegar leiðir til að leysa málið og það er verið að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert