„Ég lít á þetta sem þvingað varnarviðbragð“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir um varnarviðbragð að ræða.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir um varnarviðbragð að ræða. mbl.is/Hákon

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir þá ákvörðun að leggja til allsherjarverkbann á Eflingu fyrst og fremst varnarviðbragð í þeirri stöðu sem upp er komin í kjaradeilu Eflingar og SA.

„Ég lít á þetta sem þvingað varnarviðbragð af hálfu Samtaka atvinnulífisins. Við erum að bera hönd fyrir höfuð okkar og okkar umbjóðenda í þaulskipulögðum verkföllum Eflingar sem valda gríðarlegu tjóni fyrir umbjóðendur okkar, en það sem er mest um vert, samfélagið allt,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Verkbann jafngildi stríðsyfirlýsingu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að samþykkt verkbanns jafngilti stríðsyfirlýsingu í garð forystu Eflingar, þeirra sem þegar hafi lagt niður störf, sem og annarra félagsmanna.

„For­ysta Sam­taka at­vinnu­lífs­ins er kom­in í stríð við hátt í 21.000 manna hóp verka- og lág­launa­fólks á höfuðborg­ar­svæðinu, kom­in í stríð við vinnu­aflið sem knýr allt áfram og það er merki­legt að verða vitni að því,“ sagði Sólveig við mbl.is fyrr í dag.

Viðræðum Eflingar og SA var slitið í Karphúsinu í gær þegar ljóst var að of langt var á milli deiluaðila til að lengra yrði komist. Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deildunni, sá ekki tilefni til þess að boða nýjan fund. Í samtali við mbl.is í morgun sagðist hann liggja undir feldi og ætlaði að fylgjast með þróun mála á hliðarlínunni áður en hann tæki ákvörðun um næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert