Þróun undanfarinna ára við Öskju gefur til kynna að eldstöðin sé að búa sig undir eldgos. Greinileg merki eru um þenslu í fjallinu að mati vísindamanna og frekari rannsóknir á svæðinu sýna aukinn jarðhita á svæðinu.
Í síðustu viku flaug teymi vísindamanna yfir Öskjuvatn, en sprungur eru í ís vatnsins auk þess sem jarðskjálfti af stærðinni 3,5 reið yfir við Herðubreið nýlega. Þá voru hitamælar settir í vatnið á mismiklu dýpi, en sækja þarf mælana aftur til þess að fá niðurstöður þeirra mælinga.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hefur fylgst grannt með Öskju og segir ærið tilefni til. Hann segir mikilvægt að fylgjast með þróun á svæðinu og að allir séu meðvitaðir um hvaða þróun sé að eiga sér stað.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.