Fleiri verkföll gætu fylgt

Sólveig Anna ræddi við mbl.is.
Sólveig Anna ræddi við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir koma til greina að stéttarfélagið boði fleiri hópa í verkföll. Hún vill þó ekki gefa upp hvaða hópar eru undir.

Verkföll félagsfólks Eflingar sem starfar á Íslandshótelum, Berjaya-hótelkeðjunni, Editionhótelinu og hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hófust að nýju á miðnætti í nótt.

Klukkan 18 í dag lýkur yfirstandandi atkvæðagreiðslu Eflingar um boðun næstu verkfalla. Á kjörskrá eru um það bil 1.650 manns. Nær það til allra gistiheimila og hótela á félagssvæði Eflingar, öryggisvörslufyrirtækja og ræstingafyrirtækja.

Aðspurð kveðst Sólveig bjartsýn á að boðanirnar verði samþykktar.

Samninganefndin rætt ýmislegt

Samninganefnd Eflingar mun hittast í dag og fara yfir stöðuna. Í samtali við blaðamann eftir viðræðuslitin í gær sagði Sólveig nefndina hafa rætt ýmislegt hvað varðar frekari verkföll.

Kemur til greina að boða fleiri hópa í verkföll?

„Að sjálfsögðu kemur allt til greina af okkar hálfu.“

Eru einhverjir sérstakir hópar sem þið hafið rætt að boða næst í verkfall?

„Ég er ekki tilbúin að svara til um það núna.“

En geturðu sagt mér, án þess þá að tilgreina hópa, hvort þið hafið rætt um einhvern ákveðinn hóp?

„Samninganefndin hefur auðvitað verið að ræða ýmislegt í gegnum þetta langa ferli sem við höfum verið í.“

Í verkföllum þangað til SA bjóða betur

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA sagði við blaðamenn í Karphúsinu í gær að kröfur Eflingar hefðu verið miklu meiri en SA gæti mögulega fallist á. 

Sólveig hefur sagt það rangt hjá Halldóri, þar sem kröfur Eflingar hafi verið innan kostnaðar SA við aðra kjara­samn­inga.

Eins og þú og Halldór hafið talað lítur út fyrir að samningar séu ekki að fara að nást. Erum við að horfa fram á að þið verðið í verkföllum næstu vikur eða mánuði?

„Ef Samtök atvinnulífsins neita að gera við okkur kjarasamninga þá erum við auðvitað í verkföllum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert