Bolludeginum er fagnað í dag og gerðu allmargir landsmenn sér ferð í bakarí til þess að versla sér inn bollur í tilefni dagsins.
„Salan er búin að vera glimrandi fín“ segir Áslaug Filippa Jónsdóttir í samtali við mbl.is. Áslaug er verslunarstjóri Mosfellsbakarís við Háaleitisbraut en þar var nóg um að vera þegar blaðamenn mættu um hádegisleytið. „Við höfum fengið alveg gríðarlegt magn pantana.“
Ekki fengust upplýsingar um hversu margar bollur hafa selst í heildina í dag eða um helgina en Áslaug segir að versluninni í Háaleiti hafi borist pantanir upp á 900 kassa og í hverjum kassa eru 20 bollur.
Hún segir að bolludagur sé yfirleitt uppteknasti dagur ársins. Þar á eftir komi konudagur en sá var akkúrat í gær.
Aðspurð um hver vinsælasta bollan sé segir Áslaug að klassíska vatnsdeigsbollan með súkkúlaðiglassúr sé sú vinsælasta í ár, rétt eins og öll önnur.
„Jú, ég keypti mér klassískar“ segir Dröfn Ólafsdóttir, í samtali við mbl.is en hún var einmitt að kaupa sér bollur í bakaríinu þegar fréttamáður náði tali af henni. Segist hún að sjálfssögðu halda hátíðlega upp á daginn.
„Ætli maður þurfi að halda upp á þetta.“ segir Hörður Kristbjörnsson en hann og sonur hans Hrafn mættu í bakaríið til að kaupa sér karamellubollu. „Þessi hér má reyndar ekki fá“ segir Hörður um son sinn en þessi bolludagur er fyrsti bolludagurinn hans Hrafns.
Bolludagur er fyrsti dagurinn í föstuinngangi svokölluðum sem lýkur svo á miðvikudag, sjálfan öskudag, og þá hefst páskafasta.
Bolludagur var áður kallaður hýðingardagur. Á þeim degi átti að flengja ræfildóminn úr landanum. Hvort enn sé þörf á því í dag er matsatriði hvers og eins en það er óhætt að segja að bolluát falli þjóðinni betur í geð heldur en harðar hirtingarnar.