Hér geta undanþáguaðilar tekið eldsneyti

Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Forsvarsmenn N1 og Olís hafa hvor um sig fengið leyfi til að afgreiða eldsneyti til undanþáguaðila á þremur afgreiðslustöðvum, þegar núverandi birgðir þar klárast. Ekki er ljóst hve margar Orkustöðvar verða opnar undanþáguaðilum, en þegar hefur fengist undanþága til að halda tveimur stöðvum opnum.

N1 mun halda eldsneytisafgreiðslu opinni fyrir undanþáguaðila á Ártúnshöfða, Hringbraut og Lækjargötu, en stöðvar Olís í Norðlingaholti, á Langatanga í Mosfellsbæ og á Sæbraut verða opnar undanþáguaðilum. Stöðvar Orkunnar í Fellsmúla og Skógarhlíð verða opnar fyrir ákveðna undanþáguaðila, en fyrirtækið er í samtali um að fá undanþágu fyrir fleiri stöðvar.

Enn sem komið er eru til birgðir á stöðvunum, svo almenningur getur enn tekið eldsneyti þar. Þegar núverandi birgðir klárast á stöðvunum, verður aðeins afgreitt eldsneyti til þeirra sem hlotið hafa undanþágu.

Búast við verkfallsvörslu

Forsvarsmenn bæði N1 og Olís gera ráð fyrir að Efling muni vera með verkfallsvörslu á stöðvunum. Framkvæmdastjóri Olís segir í samtali við mbl.is að fyrirtækinu hefði þótt skynsamlegt að hafa fleiri stöðvar opnar, út frá almannaöryggissjónarmiðum. Hann segir að rökin fyrir því að svo væri ekki hægt m.a. vera sú að Efling gæti ekki sinnt verkfallsvörslu á meira en þremur afgreiðslustöðvum hvors félags.

Verkföll hafa víðtæk áhrif á stöðvarnar

Stór hluti starfsfólks félaganna eru félagsmenn í Eflingu, svo ljóst er að vinnustöðvun mun hafa gríðarleg áhrif á starfsemi olíufélaganna. Framkvæmdastjórar N1 og Olís segja að búast megi við að loka þurfi hluta starfsstöðva á höfuðborgarsvæðinu, en sett verði í forgang að halda stöðvunum sem afgreiða eldsneyti til undanþáguaðila opnum.

Mismunandi útfærsla á afgreiðslu

Olíufélögin munu útfæra afgreiðslu til undanþáguaðila á mismunandi hátt. Olís mun tryggja að undanþáguaðilar geti notað lykla og kort félagsins, eftir að undanþága hefur verið staðfest. Ef undanþáguaðilar eru ekki með slík kort eða lykla, þá mun félagið gefa út sérstök undanþágukort. Afgreiðsla getur þannig átt sér stað án aðkomu starfsmanns. N1 mun leggja áherslu á að hafa mannaðar stöðvar opnar og ganga úr skugga um að einstaklingar njóti undanþágu á afgreiðslustöðvunum. Stöð Orkunnar í Fellsmúla mun aðeins vera opin fyrir hluta undanþáguaðila og fyrirtækið mun biðla til almennings að taka ekki eldsneyti á stöðinni í Skógarhlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka