Jón Björn Hákonarson hefur tilkynnt bæjarráði Fjarðabyggðar um ákvörðun sína um að segja upp starfi sínu sem bæjarstjóri. Hefur hann óskað eftir leyfi frá störfum frá bæjarstjórn út árið 2023.
Þetta kemur fram í færslu á frá Jóni á Facebook. Hann hefur sinnt starfi bæjarstjóra frá árinu 2020. „Síðustu ár í starfi bæjarstjóra hafa verið afar annasöm, en á sama tíma ákaflega gefandi. Ég hef frá árinu 1994 helgað sveitarstjórnarmálum megnið af mínum tíma og ég lít stoltur og ánægður um öxl yfir þann tíma. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna að fjölbreyttum verkefnum fyrir samfélagið okkar á þessum tíma, hvort sem er innan nefnda sveitarfélagsins, í bæjarstjórn og nú síðast sem bæjarstjóri,“ segir Jón í m.a. í færslu sinni.
Jón segist hafa fundið fyrir gagnrýni sem fylgi sveitastjórnarstörfunum.
„Heilt yfir hefur, eins og ég sagði áðan, þessi tími minn á vettvangi sveitarstjórnarmála í Fjarðabyggð verið afar skemmtilegur og gefandi og ég er pínu meyr yfir að hafa fengið traust til þessara verka svona lengi. Ég neita því þó ekki að síðustu misseri hef ég haft ákveðnar áhyggjur af því hvernig orðræða um störf kjörinna fulltrúa er að þróast og gagnrýni og rökræða um málefni hefur þróast yfir á persónulegar nótur á samfélagsmiðlum og í almennri umræðu. Því þurfum við að breyta í samfélaginu okkar til að gera störf kjörinna fulltrúa eftirsóknarverð til framtíðar litið. Það er eðlilegt að við höfum mismunandi skoðanir og lífssýn og rökræða fari fram um þær á eðlilegum vettvangi án þess að persónum sé blandað þar inn á stundum ósmekklegan hátt. Þannig viljum við að lýðræðið virki,“ segir Jón ennfremur í færslu sinni.