Modestas enn leitað sex vikum síðar

Leitin að Modestas hefur staðið yfir í sex vikur.
Leitin að Modestas hefur staðið yfir í sex vikur. Samsett mynd

Leitin að Modestas Antanavicius, sem síðast spurðist til laugardaginn 7. janúar, er enn í gangi.

Að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi, hafa björgunarsveitir skipt með sér svæðum við leitina, auk þess sem lögreglan er á tánum. 

„Ef við fáum einhverja ábendingu kíkjum við en við höfum ekki fengið neitt sem hefur vísað okkur rétta leið,“ segir Ásmundur, spurður út í leitina sem hófst fyrir um sex vikum síðan.

Hann segir að skoðað verði hvort stærri leit verði sett í gang þegar helsti snjórinn og klakinn verður farinn.

Frá leitinni að Modestas í janúar síðastliðnum.
Frá leitinni að Modestas í janúar síðastliðnum. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Erfið staða

Síðasta stóra leitin að Modestas fór fram í janúar þegar drónar, bátar og leitarhundar komu meðal annars við sögu. Um 150 manns tóku þátt í leitinni á stóru svæði í Borgarnesi og nágrenni.

Ásmundur segir lögregluna hafa verið samskiptum við skyldmenni Modestas hérlendis. Hann segir lögregluna vona það besta en staðan sé vissulega ekki góð.

„Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið í æfingaflugi í nágrenninu hefur hún flogið yfir svæðið í von um að finna hann en það hefur ekki gerst nýlega,“ segir Ásmundur. Spurður segir hann ekki standa til að stækka leitarsvæðið en síðast var það gert með aðstoð sérstaks leitarforrits. 

„Við erum ekki hættir að leita en það er leitað núna með þessum hætti,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert