Borgin gerir þjónustusamning við Strætó sem mun hefja akstur næturstrætó innan Reykjavíkurborgar 24. febrúar næstkomandi og aka samkvæmt áætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram að stjórn Strætó samþykkti tillögu Reykjavíkurborgar um að bjóða upp á næturstrætó sem eingöngu gengur í Reykjavík, en allur kostnaður mun falla á Reykjavíkurborg.
Stakt fargjald í næturstrætó er 1.100 kr. en það jafngildir tvöföldu fargjaldi. Hægt er að kaupa sérstaka næturmiða í Klapp greiðslukerfi en eftir sem áður geta handhafar mánaðar- og árskorta notað kortin sín um borð í næturstrætó.
Í tilkynningu segir að fjórar næturleiðir muni aka frá miðbænum og út í úthverfi Reykjavíkur, þ.e. Breiðholt, Úlfarsárdal, Norðlingaholt og Grafarborg. Fyrirkomulag næturstrætó er á þann veg að næturstrætó ekur úr miðbæ Reykjavíkur á aðfararnóttum laugardags og sunnudags og verður aðeins hægt að taka næturstrætó á leið úr miðbænum en ekki til baka í átt að miðbænum.
Vagnarnir aka ekki samkvæmt hefðbundinni tímatöflu. Eingöngu er gefinn upp brottfaratími úr miðbænum og vagnarnir aka inn í hverfin án þess að tímajafna.