Manni á áttræðisaldri var ógnað með hníf og hann rændur af tveimur grímuklæddum mönnum þegar hann var tók út pening á í hraðbanka Landsbankans í Hamraborg í Kópavogi á föstudagskvöld. Að sögn aðalvarðstjóra í Kópavogsumdæmi lögreglunnar á höfuðsvæðinu var manninum mjög brugðið. Hefur lögreglan þegar haft hendur í hári mannanna.
Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri segir að lögreglan hafi góðar upplýsingar um málið. Alls tóku mennirnir 10 þúsund krónur af manninum. Maðurinn var skelkaður eftir atvikið að sögn Gunnars. „Já hann var það (skelkaður). Þetta er fullorðinn maður og þeir voru tveir ungir menn sem ógnuðu honum með hníf,“ segir Gunnar.
Hann segir að þessi tegund glæpa sé sem betur fer ekki tíð á Íslandi. „Þetta er sem betur fer mjög sjaldgæft,“ segir Gunnar og bætir við að það sé ekki algengt að þjófar sitji um hraðbanka á Íslandi. Slíkt athæfi er betur þekkt erlendis.
Spurður hvort að málið teljist upplýst þá segir Gunnar að mennirnir hafi þekkst á upptöku og því teljist málið allt að því upplýst. Tekur hann þó fram að rannsókn sé enn í gangi.