„Sorgleg örlög höfundar“

Margrét Tryggvadóttir.
Margrét Tryggvadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er komið á daginn að Netflix keypti höfundaréttinn nýverið og þá aðallega til þess að gera nýtt sjónvarpsefni. Það eru sorgleg örlög höfundar að verða þynntur út af efnisveituiðnaðinum. Ég gæti satt best að segja trúað að breytingarnar komi til með að ýta undir sölu á eldri og óbreyttum útgáfum verði þær enn til.“

Þetta segir Margrét Tryggvadóttir, barnabókahöfundur og starfandi formaður Rithöfundasambands Íslands, í samtali við mbl.is um ákvörðun um að endurskrifa stóra hluta barnabóka eftir Roald Dahl.

Breytingar á upprunalegan textanum

Eins og greint hefur verið frá hefur bókaútgáfan Puffin gert margar breytingar á upprunalega texta Dahl fyrir nýjar útgáfur á barnabókum sem flestir kannast við. Mörgum orðum og hugtökum sem útgefandinn álítur móðgandi hafa verið fjarlægð eða breytt. Að sögn Puffin er þetta gert til að tryggja að allir lesendur geti haldið áfram að njóta bókanna.

Margrét segir að það sé hægt að tala um umræddar breytingar sem ritskoðun en það sé einnig hægt að líta á þetta sem endurritun fyrir nýja lesendur. Hún tekur þó fram að varlega þurfi að fara í svona breytingar og ítrekar mikilvægi þess að höfundarréttur sé virtur. Þegar stórfyrirtæki er orðið rétthafi vanti kannski virðinguna og frekar litið á verk höfundarins sem efnivið í frekari framleiðslu en sjálfstætt listaverk.

Roald Dahl.
Roald Dahl.

„Mér finnst þetta afar áhugavert en líka ógnvekjandi. Við erum náttúrulega alltaf að yfirfæra gamla texta, t.d. við þýðingar og kvikmyndun. Barnasögur voru upprunalega í munnlegri geymd og þá lagaði hver sögumaður textann að hlustendum og tíðarandanum hverju sinni. En þetta er miklu erfiðara með útgefinn texta, vandmeðfarið og umdeilanlegt.“

Margrét segir tíðarandann hverju sinni alltaf vera með sínar kröfur og sín viðmið. Það þýði ekki endilega að öll í gamla daga hafi verið vondar manneskjur.

Ekki nýtt af nálinni 

Margrét segir að það sé alls ekkert nýtt af nálinni að laga sögur að breyttum tímum og bendir á Múmínálfana sem dæmi. Hún segir að margar nýjar múmínsögur hafi verið skrifaðar á undanförnum árum fyrir nýja hópa barna þótt höfundurinn sé löngu látinn. 

„Ég skil alveg að það fari um fólk þegar það er verið að hreyfa svona við höfundaverki. Það er alltaf spurning hvort að það sé þörf á þessu og hver hvatinn sé. Ef bækur teljast ekki lengur í takt við tíðarandann er rökréttara að rétta börnum nýjar bækur en umskrifa og ritskoða klassíkina," segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert