„Sorgleg örlög höfundar“

Margrét Tryggvadóttir.
Margrét Tryggvadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er komið á dag­inn að Net­flix keypti höf­unda­rétt­inn ný­verið og þá aðallega til þess að gera nýtt sjón­varps­efni. Það eru sorg­leg ör­lög höf­und­ar að verða þynnt­ur út af efn­isveituiðnaðinum. Ég gæti satt best að segja trúað að breyt­ing­arn­ar komi til með að ýta und­ir sölu á eldri og óbreytt­um út­gáf­um verði þær enn til.“

Þetta seg­ir Mar­grét Tryggva­dótt­ir, barna­bóka­höf­und­ur og starf­andi formaður Rit­höf­unda­sam­bands Íslands, í sam­tali við mbl.is um ákvörðun um að end­ur­skrifa stóra hluta barna­bóka eft­ir Roald Dahl.

Breyt­ing­ar á upp­runa­leg­an text­an­um

Eins og greint hef­ur verið frá hef­ur bóka­út­gáf­an Puff­in gert marg­ar breyt­ing­ar á upp­runa­lega texta Dahl fyr­ir nýj­ar út­gáf­ur á barna­bók­um sem flest­ir kann­ast við. Mörg­um orðum og hug­tök­um sem út­gef­and­inn álít­ur móðgandi hafa verið fjar­lægð eða breytt. Að sögn Puff­in er þetta gert til að tryggja að all­ir les­end­ur geti haldið áfram að njóta bók­anna.

Mar­grét seg­ir að það sé hægt að tala um um­rædd­ar breyt­ing­ar sem rit­skoðun en það sé einnig hægt að líta á þetta sem end­ur­rit­un fyr­ir nýja les­end­ur. Hún tek­ur þó fram að var­lega þurfi að fara í svona breyt­ing­ar og ít­rek­ar mik­il­vægi þess að höf­und­ar­rétt­ur sé virt­ur. Þegar stór­fyr­ir­tæki er orðið rétt­hafi vanti kannski virðing­una og frek­ar litið á verk höf­und­ar­ins sem efnivið í frek­ari fram­leiðslu en sjálf­stætt lista­verk.

Roald Dahl.
Roald Dahl.

„Mér finnst þetta afar áhuga­vert en líka ógn­vekj­andi. Við erum nátt­úru­lega alltaf að yf­ir­færa gamla texta, t.d. við þýðing­ar og kvik­mynd­un. Barna­sög­ur voru upp­runa­lega í munn­legri geymd og þá lagaði hver sögumaður text­ann að hlust­end­um og tíðarand­an­um hverju sinni. En þetta er miklu erfiðara með út­gef­inn texta, vandmeðfarið og um­deil­an­legt.“

Mar­grét seg­ir tíðarand­ann hverju sinni alltaf vera með sín­ar kröf­ur og sín viðmið. Það þýði ekki endi­lega að öll í gamla daga hafi verið vond­ar mann­eskj­ur.

Ekki nýtt af nál­inni 

Mar­grét seg­ir að það sé alls ekk­ert nýtt af nál­inni að laga sög­ur að breytt­um tím­um og bend­ir á Múmí­nálf­ana sem dæmi. Hún seg­ir að marg­ar nýj­ar múmín­sög­ur hafi verið skrifaðar á und­an­förn­um árum fyr­ir nýja hópa barna þótt höf­und­ur­inn sé löngu lát­inn. 

„Ég skil al­veg að það fari um fólk þegar það er verið að hreyfa svona við höf­unda­verki. Það er alltaf spurn­ing hvort að það sé þörf á þessu og hver hvat­inn sé. Ef bæk­ur telj­ast ekki leng­ur í takt við tíðarand­ann er rök­rétt­ara að rétta börn­um nýj­ar bæk­ur en umskrifa og rit­skoða klass­ík­ina," seg­ir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert