Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf þar sem eldsvoði varð fyrir helgi, er búinn að fá lyklana aftur að húsnæðinu. Rannsókn tæknideildar lögreglunnar á vettvangi er lokið en eldsupptök eru óljós sem stendur. Líklegt þykir að íkveikja hafi orðið, segir hann.
„Við reynum eins og við getum að koma þessu [húsnæði] í stand sem fyrst. Maður hefur enga hugmynd um hvað það tekur langan tíma, ég hef sem betur fer ekki lent í svona áður,“ segir Arnar Gunnar, sem ætlar að halda ótrauður áfram með starfsemina.
Hann segir fréttaflutning undanfarið um húsnæðið hafa verið ónákvæman og nefnir til að mynda að fólkið sem þarna dvelur greiði 120 til 140 þúsund krónur á mánuði í leigu en fái á móti 80 til 120 þúsund krónur í húsaleigubætur. „Sumt fólk er þarna í frírri leigu,“ segir hann.
Sjálfur segist hann, fyrir síðustu stýrivaxtahækkun, hafa borgað 3,7 milljónir króna á mánuði af húsinu, þar af 720 þúsund á mánuði í fasteignagjöld, en herbergin eru 30 talsins. Reykjavíkurborg hafi ekki viljað breyta skráningu húsnæðisins úr skrifstofuhúsnæði í heimili og þess vegna greiði hann svona há fasteignagjöld.
„Fólk er fljótt að sjá hvað leigan þarf að vera há,“ segir hann og kveðst miða við að hafa leiguna lægri en á öðru slíku heimili, Draumasetrinu.
Fólk sem hefur átt við vímuefnavanda að stríða hefur leigt hjá honum en einnig hælisleitendur og heimilislausir sem hafa sumir hafa beðið lengi félagslegu húsnæði. „Í raun er þetta samfélagslegt vandamál. Allt samfélagið er að borga fyrir þetta fólk, það er allt á bótum,“ útskýrir hann.
Arnar segir fólkið fá hjá honum einkaherbergi með nettengingu, ísskáp og rúm með hreinum rúmfötum, auk þess sem það nýtir sameignina. Húsnæðið er 1.300 fermetrar í heild sinni en sé því deilt í 30, fjölda herbergjanna, hafi hver og einn afnot af 43 fermetrum. Hann tekur fram að húsaskjól hafi fundist fyrir alla sem misstu herbergi sín í eldsvoðanum.
Arnar segir mörg hundruð manns vera húsnæðislaus í Reykjavík. Flestir séu á biðlistum eftir félagslegu húsnæði. „Það er ófremdarástand í húsnæðismálum í Reykjavík. Frá því ég opnaði hafa yfir 500 kennitölur komið hér í gegn hjá mér frá 2019, þannig að þessi þjónusta er mjög nauðsynleg,“ bætir hann við. Áður rak hann svipað heimili við Fannborg í Kópavogi.
Úrræðið sem hann býður upp á kallast Housing First og byrjaði það fyrst í Finnland. Að sögn stofnanda verkefnisins fækkaði þar útigangsfólki um 70% á fyrstu þremur árunum sem Finnar buðu upp á úrræðið, að því er Arnar bendir á. „Mér fannst þetta frábær hugmynd, því það er ómögulegt að reyna að verða edrú heimilislaus.“
Hann kveðst ekki hafa verið í samstarfi við borgina út af úrræðinu, hún hafi aldrei viljað hjálpa sér, ekki frekar en ríkið. „Þessi málaflokkur er eins og heit kartafla,“ segir hann og bendir á að sumir hafi leitað til hans eftir að hafa verið vísað úr gistiskýlum Reykjavíkurborgar.
Spurður segir hann rekstur áfangaheimila ekki vera leyfisskylda starfsemi. Fyrst og fremst vilji hann með framtakinu hjálpa heimilislausu fólki og því miður sé nóg af því til. Þau skilyrði eru sett að ef íbúarnir sem vilja leigja hjá honum eru í neyslu þurfa þeir að samþykkja að sækja um meðferð. Hann kveðst vera í daglegum samskiptum við fólkið og það komi fyrir að hann þurfi að reka það út hagi það sér ekki sómasamlega.
Arnar Gunnar segir vissulega ýmis vandamál fylgja sumu fólkinu. „Margir eru í verstu félagslegu aðstöðu sem hægt er að vera í en þetta er samt fólk og það þarf húsnæði og það er enginn sem vill hjálpa því. Það eru gríðarlegir fordómar gegn þeim en það hafa lögreglumenn þakkað mér fyrir að veita þessa þjónustu og dáðst af því,“ greinir forstöðumaðurinn frá og bendir á til marks um vandamálið að hann viti til þess að þrír ungir menn hafi dáið úr neyslu, bara í síðustu viku. Þar af hafi einn verið á biðlista eftir því að komast í meðferð.